Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands segjast reiðubúnir í frekari samvinnu landanna tveggja, í tengslum við innrásarstríð Rússa í Úkraínu. Þetta tilkynntu þeir á fundi í Ríad í Sádí-Arabíu í dag.
Ráðherrarnir Marco Rubio og Sergei Lavrov samþykktu að leggja grunn að frekari samvinnu í geópólitískum málum, þar sem ríkin eigi sameiginlega hagsmuni, og í sögulegum efnahags- og fjárfestingatækifærum sem muni koma fram þegar endi er bundinn á átökin í Úkraínu, sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna eftir fundinn.
Þeir eru einnig sagðir hafa ákveðið á fundinum að skipa hópa til að semja um endalok stríðsins í Úkraínu, „með varanlegum hætti, sjálfbærum og sem allar hliðar geta unað við,“ sagði talsmaðurinn.