Við Héraðsdóm Þrændalaga í Noregi lauk í dag aðalmeðferð í máli Arne Bye, fyrrverandi heimilislæknis og yfirlæknis sveitarfélagsins Frosta, norðvestur af Þrándheimi, þar sem hann svaraði til saka, ákærður fyrir að nauðga 87 kvenkyns sjúklingum sínum árabilið 2004 til 2022 og gera af því myndbandsupptökur með tólf myndavélum.
Krefjast Eli Reberg Nessimo og Rikhard Haugen Lyng héraðssaksóknarar, sem fara með málið fyrir hönd ákæruvaldsins, 21 árs fangelsisrefsingar, en af nógu er að taka þegar kemur að sönnunargögnum þar sem rannsókn málsins nær meðal annars til samtals 5.500 klukkustunda af upptökum frá læknastofu hans.
Lagði lögregla hald á efnið við húsleit á heimili Byes þar sem það var vistað á fjölda stafrænna geymslueininga. Alls fann lögregla 47.000 myndskeið af 219 sjúklingum.
Nær ákæra á hendur honum til 94 tilfella kynferðisbrota, en læknirinn viðurkennir í heildina 21 nauðgun og 44 brotatilfelli. Krefjast verjendurnir Per Ove Sørholt og Erlend Hjulstad Nilsen að hámarki 17 til 18 ára refsingar og segir sá fyrrnefndi í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að þar sem skjólstæðingur hans hafi þó viðurkennt þetta mörg brot eigi hann heimtingu á vægari refsingu.
Auk mörg þúsund klukkustunda myndefnis leggur ákæruvaldið fram myndir af fjölda áhalda sem Bye er gefið að sök að hafa fært inn í líkamsop sjúklinga sinna og lét Lyng saksóknari þau orð falla við aðalmeðferðina að þar færu hlutir sem „svo ég orði það einfaldlega, hafa enga tengingu við kvensjúkdómaskoðun“.
Engin áhaldanna hafa fundist við leit lögreglu, en byggir ákæruvaldið málatilbúnað sinn á kyrrmyndum af þeim úr myndskeiðum læknisins sem duldi upptökur sínar með því að hylja rautt ljós á tökuvélunum, sem gaf til kynna að upptaka væri í gangi, með límmiðum.
Bentu saksóknarar á það fyrir héraðsdómi að sjúklingar Byes hefðu verið í sérstaklega viðkvæmri stöðu gagnvart lækni sínum. „Eitt fórnarlambanna heimsótti lækninn til að fá úrskurð um hvort það þarfnaðist læknismeðferðar eða eftirfylgni. Málið varðaði viðkvæmustu líkamshlutana.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst Bye hafa notað upptökurnar sem gögn við rannsóknir sínar á sjúklingunum, en þegar allt var talið saman féll grunur á lækninn um að hafa misnotað tíunda hvern kvenkynsíbúa sveitarfélagsins kynferðislega, allt frá táningum upp í konur á sjötugsaldri.
Árið 2007 kvörtuðu nokkrir sjúklingar hans yfir óeðlilegri háttsemi, en málið var aldrei tekið til skoðunar. Endurtók þetta sig tíu árum síðar án þess að stjórnendur í Frosta gripu til nokkurra aðgerða gegn yfirlækni sveitarfélagsins. Það var svo árið 2021 sem formlegur grunur féll á Bye.
Þá greindi ung kona frá því að hún hefði leitað til læknisins vegna kúlulaga bólgu á handlegg og þá þurft að sæta líkamsrannsókn nakin á stofu læknisins. Var hann sviptur stöðu sinni í júní það ár og féll formlegur grunur lögreglu á hann er hún hóf rannsókn í kjölfarið.
Upptökur þær sem læknirinn hafði gert af háttsemi sinni náðu þó aðeins aftur til ársins 2016, en hann er sem fyrr segir grunaður um brot yfir 18 ár, frá 2004 til 2022.