Ákærður fyrir tilraun til valdaráns og morðtilræði

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, sver af sér sök.
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, sver af sér sök. AFP

Dóms­málaráðherra Bras­il­íu hef­ur ákært Jair Bol­son­aro, fyrr­ver­andi for­seta lands­ins, fyr­ir til­raun til vald­aráns í land­inu eft­ir að hann beið lægri hlut í for­seta­kosn­ing­un­um árið 2022. Alls hafa 33 til viðbót­ar verið ákærðir í tengsl­um við málið.

Ákær­an á hend­ur Bol­son­aro, sem er 69 ára, og sam­verka­mönn­um hans er í fimm liðum. Hún snýr í meg­in­at­riðum að því að þeir hafi reynt að koma í veg fyr­ir að Luiz Inacio Lula da Silva gæti tekið við sem for­seti eft­ir ansi harða kosn­inga­bar­áttu.

Pau­lo Go­net Branco, dóms­málaráðherra Bras­il­íu, lagði ákæru fram með form­leg­um hætti hjá hæsta­rétti lands­ins, en ákær­an bygg­ir á hand­rit­um, sta­f­ræn­um gögn­um, gögn­um úr töflu­reikn­um og smá­skila­boðum. Dóms­málaráðuneytið tek­ur fram að gögn­in sýni að Bol­son­aro og sam­verka­menn hans hafi gert skipu­lagða at­lögu á hið lýðræðis­lega ferli.

Vopnuð glæpa­sam­tök

Gögn­in sýni í smá­atriðum það sam­særi sem hafi verið sett á lagg­irn­ar og beint gegn lýðræðis­leg­um stofn­un­um lands­ins.

Þeir eru meðal ann­ars ákærðir fyr­ir glæpi skipu­lagðra og vopnaðra glæpa­sam­taka sem Bol­son­aro og vara­for­seta­efni hans, Walter Braga Netto, hafi leitt.

„Þeir gerðu til­raun, í sam­starfi við aðra ein­stak­linga, þar á meðal óbreytta borg­ara og starfs­menn hers­ins, til að koma í veg fyr­ir, á skipu­lagðan máta, að niður­stöður for­seta­kosn­ing­anna 2022 myndu raun­ger­ast,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu ráðuneyt­is­ins.

Samkvæmt ákærunni þá stóð til að ráða m.a. Luiz Inacio …
Sam­kvæmt ákær­unni þá stóð til að ráða m.a. Luiz Inacio Lula da Silva, nú­ver­andi for­seta lands­ins, af dög­um. AFP

Segja Bol­son­aro hafa vitað og tekið þátt í ráðabrugg­inu

Ákæru­valdið bygg­ir málið á lög­reglu­skýrslu sem tel­ur yfir 800 blaðsíður. En skýrsl­an var birt í fyrra í kjöl­far rann­sókn­ar sem stóð yfir í tvö ár. Það kom fram að Bol­son­aro hefði gert sér fulla grein fyr­ir sam­sær­inu og tekið þátt í því í þeim til­gangi að halda völd­um.

Bol­son­aro hef­ur aft­ur á móti neitað sök. Hann kveðst vera fórn­ar­lamb of­sókna.

Í til­kynn­ingu dóms­málaráðuneyt­is­ins er tekið fram að upp­haf sam­sær­is­ins megi rekja til árs­ins 2021 þegar gerðar voru kerf­is­bundn­ar árás­ir á ra­f­ræna kjörstaði með op­in­ber­um yf­ir­lýs­ing­um og í gegn­um netið.

Í októ­ber 2022, þegar seinni um­ferð for­seta­kosn­ing­anna fór fram, voru ör­ygg­is­sveit­ir send­ar á vett­vang til að koma í veg fyr­ir að kjós­end­ur gætu kosið full­trúa stjórn­ar­and­stöðunn­ar.

Ólíklegt verður að teljast að hinn eini sanni Mikki Mús …
Ólík­legt verður að telj­ast að hinn eini sanni Mikki Mús hafi lagt á ráðin með Bol­son­aro og hans kón­um. AFP

Gerðu árás á þing­húsið og for­seta­höll­ina

Þeir sem eru sagðir bera ábyrgð á sam­sær­inu eru sagðir hafa ýtt und­ir of­beld­is­verk og skemmd­ar­verk sem voru unn­in 8. janú­ar 2023 þegar stuðnings­menn Bol­son­aro réðust inn í for­seta­höll­ina, þing­húsið og hús­næði hæsta­rétt­ar lands­ins í höfuðborg­inni Bras­il­íu.

Þá hafa rann­sak­end­ur sýnt fram á sam­særi til að ráða Lula, vara­for­set­ann Ger­aldo Alckmin og hátt sett­an dóm­ara af dög­um. Þetta hafi verið gert með samþykki Bol­son­aro.

Bol­son­aro var stadd­ur í Banda­ríkj­un­um þegar óeirðirn­ar áttu sér stað. Hann vísaði öll­um ásök­un­um á bug í viðtali við CNN í Bras­il­íu.

Vald­arán skipu­lagt með Mikka Mús og Andrési Önd?

„Hvaða til­raun til vald­aráns er verið að tala um? Að ég hafi verið í Or­lando, í Disney, með Mikka Mús, Guffa og Andrési Önd, að skipu­leggja vald­arán hér í Bras­il­íu?“

Þegar hann var spurður hvað myndi ger­ast yrði hann hand­tek­inn sagði Bol­son­aro: „Ég fer í fang­elsi, ég mun ekki yf­ir­gefa Bras­il­íu. Ég er ekki að fara flýja Bras­il­íu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert