Danska ríkissjónvarpið, DR, hefur dregið umdeilda heimildarmynd um kríólítvinnslu í Grænlandi til baka og rekið ritstjóra sem var ábyrgur fyrir því að myndin var sýnd.
Heimildarmyndin, sem sýnd var í janúar, bar yfirskriftina Grønlands hvide guld og þar var fullyrt að Danir hefðu á árunum 1854 til 1987 selt grænlenskt kríólít úr námu í Ivittuut og vörur unnar úr því fyrir 400 milljarða danskra króna, jafnvirði 8 þúsund milljarða íslenskra króna á núvirði.
En sérfræðingar hafa dregið þessa tölu í efa og fram hefur komið að höfundar myndarinnar hefðu verið varaðir við að nota hana. Sögðu sérfræðingarnir, að í myndinni sé gefið ranglega til kynna að Danir hafi grætt 400 milljarða á kríólítinu.
Myndin hefur verið til umræðu í kosningabaráttu fyrir væntanlegar þingkosningar í Grænlandi þar sem helsta kosningamálið er aukið sjálfstæði Grænlands.
Kríólít er einkum notað við álframleiðslu.