ESB samþykkir refsiaðgerðir gegn Rússum

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. AFP

Evrópusambandið hefur samþykkt nýjar refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Á meðal aðgerða er bann á innflutningi rússnesks áls. Þær verða formlega samþykktar næstkomandi mánudag en þá verða liðin þrjú ár síðan Rússland gerði innrás í Úkraínu.

Miðillinn euronews greinir frá.

Verður sextánda aðgerðin frá innrás

Aðgerðirnar voru samþykktar í dag sem vekur athygli því á sama tíma eiga friðarviðræður sér stað á milli Bandaríkjanna og Rússlands. Fulltrúar Evrópu hafa ekki átt aðkomu að þeim. 

Utanríkisráðherra Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Marco Rubio, hefur þó stungið upp á því að Evrópa verði kölluð að samningaborðinu sökum þeirra refsiaðgerða sem settar hafa verið á Rússland.

Með formlegri samþykkt á mánudaginn verða refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússlandi orðnar sextán talsins síðan landið gerði innrás inn í Úkraínu í febrúar 2022.

Um 6% af heildarinnflutningi áls

Sagt er að það sé engin tilviljun að Evrópusambandið vilji að aðgerðirnar verði samþykktar á þriggja ára afmæli innrásarstríðsins en næstkomandi mánudag munu helstu embættismenn Evrópusambandsins halda til Kænugarðs í heimsókn.

Hugmyndin um að banna innflutning á rússnesku áli hefur áður verið rædd en aldrei samþykkt. Hefur það verið vegna andstöðu sumra aðildarríkja sem hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum þess.

Rússneskt ál er um 6% af heildarinnflutningi áls inn í Evrópu. Áður hefur Evrópusambandið bannað rússneskar vörur tengdar áli á borð við víra, slöngur og rör.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert