Fylgst með varhugaverðum loftsteini

Mynd frá NASA sýnir lofttsteininn 2024 YR4.
Mynd frá NASA sýnir lofttsteininn 2024 YR4. AFP

Stjörnu­fræðing­ar hjá banda­rísku geim­ferðastofn­un­inni NASA segja að 3,1% lík­ur séu á að loft­steinn, sem gæti valdið tals­verðu tjóni, lendi á jörðinni árið 2032.  

Sér­fræðing­ar segja þó að ekki sé ástæða til ótta. Fylgst er vel með stein­in­um, sem nefnd­ur er 2024 YR4, og verður James Webb geim­sjón­auk­an­um beint að hon­um í mars.

„Ég er al­veg ró­leg­ur,“ seg­ir Bruce Betts, aðal­vís­indamaður hjá stofn­un­inni Pla­net­ary Society, við AFP frétta­stof­una. Hann seg­ir að vænt­an­lega muni draga úr lík­um á árekstri eft­ir því sem vís­inda­menn afla betri gagna um ferðir loft­steins­ins.

Vís­inda­menn hjá El Sauce Observatory í Síle sáu 2024 YR4 fyrst 27. des­em­ber. Talið er að loft­steinn­inn sé 40-90 metra breiður. Alþjóðaloft­steinaviðvör­un­ar­netið, IAWN, gaf út viðvör­un 29. janú­ar eft­ir að lík­ur á að steinn­inn lenti á jörðinni voru tald­ar meiri en 1%. Síðan þá hafa þess­ar lík­ur hækkað og nú eru tald­ar 3,1% lík­ur á að steinn­inn lendi á jörðinni 22. des­em­ber 2023. 

Síðast þegar loft­steinn, stærri en 30 metr­ar á breidd, var hugs­an­lega tal­inn geta lent á jörðinni var árið 2004 en þá var talið að 2,7% lík­ur væru á að loft­steinn­inn Apophis lenti á jörðinni árið 2029. En við nán­ari rann­sókn­ir kom í ljós að hætt­an var eng­in. 

Steinn­inn gæti valdið miklu tjóni lendi hann á borg. Miðað við nú­ver­andi út­reikn­inga er lík­leg­ast að hann myndi lenda á opnu hafi en hugs­an­lega gæti hann lent í ná­grenni við stór­ar borg­ir eins og Bogotá í Kól­umb­íu, Lagos í Níg­er­íu eða Mumbai á Indlandi. 

Raun­ar er lík­leg­ast að ef steinn­inn kem­ur inn í loft­hjúp jarðar muni hann splundr­ast en vís­inda­menn segja ekki hægt að úti­loka að hann myndi gíg ef hann skell­ur á jörðinni á 64 þúsund kíló­metra hraða.

En ef í ljós kem­ur að steinn­inn stefni á jörðina er hægt að bregðast við því með ýms­um hætti. Þannig færði svo­nefnd­ur 2022 DART leiðang­ur NASA fram á að hægt er að breyta stefnu loft­steina með því að láta geim­för lenda á þeim. Vís­inda­menn segja að einnig kunni að vera hægt að beita öðrum aðferðum, eins og leysi­geisl­um eða jafn­vel kjarn­orku­sprengj­um til að breyta stefn­unni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert