Fylgst með varhugaverðum loftsteini

Mynd frá NASA sýnir lofttsteininn 2024 YR4.
Mynd frá NASA sýnir lofttsteininn 2024 YR4. AFP

Stjörnufræðingar hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA segja að 3,1% líkur séu á að loftsteinn, sem gæti valdið talsverðu tjóni, lendi á jörðinni árið 2032.  

Sérfræðingar segja þó að ekki sé ástæða til ótta. Fylgst er vel með steininum, sem nefndur er 2024 YR4, og verður James Webb geimsjónaukanum beint að honum í mars.

„Ég er alveg rólegur,“ segir Bruce Betts, aðalvísindamaður hjá stofnuninni Planetary Society, við AFP fréttastofuna. Hann segir að væntanlega muni draga úr líkum á árekstri eftir því sem vísindamenn afla betri gagna um ferðir loftsteinsins.

Vísindamenn hjá El Sauce Observatory í Síle sáu 2024 YR4 fyrst 27. desember. Talið er að loftsteinninn sé 40-90 metra breiður. Alþjóðaloftsteinaviðvörunarnetið, IAWN, gaf út viðvörun 29. janúar eftir að líkur á að steinninn lenti á jörðinni voru taldar meiri en 1%. Síðan þá hafa þessar líkur hækkað og nú eru taldar 3,1% líkur á að steinninn lendi á jörðinni 22. desember 2023. 

Síðast þegar loftsteinn, stærri en 30 metrar á breidd, var hugsanlega talinn geta lent á jörðinni var árið 2004 en þá var talið að 2,7% líkur væru á að loftsteinninn Apophis lenti á jörðinni árið 2029. En við nánari rannsóknir kom í ljós að hættan var engin. 

Steinninn gæti valdið miklu tjóni lendi hann á borg. Miðað við núverandi útreikninga er líklegast að hann myndi lenda á opnu hafi en hugsanlega gæti hann lent í nágrenni við stórar borgir eins og Bogotá í Kólumbíu, Lagos í Nígeríu eða Mumbai á Indlandi. 

Raunar er líklegast að ef steinninn kemur inn í lofthjúp jarðar muni hann splundrast en vísindamenn segja ekki hægt að útiloka að hann myndi gíg ef hann skellur á jörðinni á 64 þúsund kílómetra hraða.

En ef í ljós kemur að steinninn stefni á jörðina er hægt að bregðast við því með ýmsum hætti. Þannig færði svonefndur 2022 DART leiðangur NASA fram á að hægt er að breyta stefnu loftsteina með því að láta geimför lenda á þeim. Vísindamenn segja að einnig kunni að vera hægt að beita öðrum aðferðum, eins og leysigeislum eða jafnvel kjarnorkusprengjum til að breyta stefnunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert