Yfirvöld fornminjamála í Egyptalandi greina frá því að gröf faraósins Tútmoses II sé fundin og er þar með fyrsta konungsgröfin sem finnst þar í landi síðan breski fornleifafræðingurinn Howard Carter fann gröf Tútankamons árið 1922 í Dal konunganna og uppskar heimsathygli fyrir vikið.
Tútmóse II var fjórði faraó átjánda keisaradæmis Egyptalands og ríkti að því er talið er í þrettán ár, frá 1493 til 1479 fyrir Krists burð. Um Tútmóse II vita fræðimenn í raun fátt, faðir hans, Tútmóse I, skyggði mikið til á son sinn auk þess sem Hatsepsút, sem var hvort tveggja í senn, hálfsystir Tútmóse og eiginkona hans, hefur notið mun meiri athygli sögunnar en maður hennar og hálfbróðir sem dó ungur, svo sem faraóa var siður. Var hann einhvers staðar á aldursbilinu 13 til 23 ára þegar hann lést.
Slær dr. Mohamed Ismail Khaled, formaður fornleifaráðs Egyptalands, því föstu að áletranir á leirkrukkum í gröfinni beri nafn Tútmóses II og sé nafn Hatsepsút að finna við hlið nafns hans. Er gröfin ekki fjarri þeim stað þar sem múmía Tútmóses II fannst árið 1881, en hald fræðimanna er að sú gröf hafi verið færð nokkrum öldum eftir að grafarræningjar fóru um hana ránshendi. Faraóinn sjálfur er sem sagt löngu kominn í leitirnar.
Í gröfinni, sem er augljóslega löskuð af völdum flóða, sem urðu skömmu eftir andlát Tútmóses II, liggur gangur að sjálfri grafhvelfingunni í aðalsal grafhýsisins og er gólf hvelfingarinnar tæpum 150 sentimetrum hærra en annars staðar í grafhýsinu
Voru það egypskir fornleifafræðingar í samstarfi við breska sérfræðinga sem fundu gröf faraósins á Thebes-svæðinu vestur af Lúxor og hafa fjölmiðlar það eftir dr. Khaled að gröfin, sem er um 3.500 ára gömul, sé einn merkasti fornleifafundur í Egyptalandi í áratugi.