Hafna yfirlýsingum Trumps með öllu

Frá vinstri: Olaf Scholz Þýskalandskanslari, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Ulf …
Frá vinstri: Olaf Scholz Þýskalandskanslari, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar. Samsett mynd/AFP

Leiðtogar Evrópuríkja hafa margir brugðist við yfirlýsingu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í dag, þar sem hann kallaði Volodimír Selenskí Úkraínuforseta einræðisherra.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hafnar fullyrðingunni með öllu og segir hættulegt og rangt að draga lögmæti Selenskís í efa. Minnir kanslarinn á að það var Rússland, undir stjórn Vladimírs Pútin, sem hóf stríðið í Úkraínu.

Trump birti yfirlýsingu sínu á X í dag þar sem hann heldur því fram að Selenskí neiti að halda kosningar. Segir hann hafa tapað miklu fylgi og að það eina sem hann hafi verið góður í hafi verið að spila á Joe Biden „eins og fiðlu“.

„Einræðisherra án kosninga, eins gott að Selenskí aðlagi sig fljótt, svo hann missi ekki land sitt,“ skrifar Trump. 

Ef það væru haldnar kosningar væri friður

Í viðtali við þýska miðilinn Spiegel minnir Scholz á að það sé erfitt að halda lýðræðislegar kosningar í miðju stríði sem væru í samræmi við stjórnarskrá og kosningalög í Úkraínu. 

Þá hefur forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson, einnig lagt orð í belg. Í viðtali við sænska ríkisútvarpið minnir hann á að Selenskí hafi verið kosinn í lýðræðislegum kosningum.

Kosið er til forseta Úkraínu á fimm ára fresti. Selenskí var kjörinn árið 2019 og undir eðlilegum kringumstæðum hefðu forsetakosningar verið haldnar á síðasta ári.  

„Ég held að enginn vilji halda kosningar eins mikið og Úkraína, af því að kosningar myndu þýða að það væri friður í Úkraínu,“ segir Kristersson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert