Kallar Selenskí einræðisherra sem græði á stríðinu

Donald Trump á setri sínu í Flórída í gær.
Donald Trump á setri sínu í Flórída í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýnir harðlega Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í nýrri yfirlýsingu. Kallar hann forsetann einræðisherra og segir hann hafa staðið sig hræðilega.

„Að hugsa sér, hóflega árangursríkur grínisti, Volodimír Selenskí, sannfærði Bandaríkin um að eyða 350 milljörðum dala, í stríð sem ekki er mögulegt að vinna, sem þurfti aldrei að hefjast, en stríð sem hann, án Bandaríkjanna og „TRUMP“ gæti aldrei leitt til lykta,“ skrifar Trump.

„Bandaríkin hafa eytt 200 milljörðum dala meira en Evrópa hefur gert, og peningar Evrópu eru tryggðir, á meðan Bandaríkin munu ekki fá neitt til baka,“ fullyrðir forsetinn enn fremur.

Yfirlýsingin fylgir í kjölfar ummæla Selenskís fyrr í dag, þar sem hann sagði það ljóst af málflutningi Trumps að dæma að hann væri fastur í rússneskri upplýsingaóreiðu.

Einræðisherra án kosninga

Trump fullyrðir einnig að Selenskí hafi viðurkennt að helmingur fjárins frá Bandaríkjunum hafi týnst.

Heldur hann því einnig fram að Úkraínuforsetinn neiti að halda kosningar, hafi misst fylgi og að það eina sem hann hafi verið góður í hafi verið að spila á Joe Biden „eins og fiðlu“.

„Einræðisherra án kosninga, eins gott að Selenskí aðlagi sig fljótt, svo hann missi ekki land sitt,“ skrifar Trump.

Selenskí vilji halda áfram til að hagnast

„Í millitíðinni erum við, með góðum árangri, að semja við Rússland um lok stríðsins, nokkuð sem allir geta viðurkennt að aðeins „TRUMP“ og ríkisstjórn Trumps er fær um að gera. Biden reyndi aldrei, Evrópu hefur mistekist að koma á friði,“ segir Trump.

Bætir hann við að Selenskí vilji áreiðanlega halda stríðinu áfram í hagnaðarskyni.

„Ég elska Úkraínu, en Selenskí hefur staðið sig hræðilega, landið hans er í molum, og MILLJÓNIR hafa dáið að óþörfu – og þannig heldur þetta áfram.“

Þess ber að geta að ekki einu sinni ein milljón manna hefur látið lífið í stríðinu, að því er talið er, og það þó að uppgefnar slíkar tölur beggja fylkinga séu vafalaust minni en raunin er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert