Rússneskir fjölmiðlar gera mikið úr fundi rússneskra og bandarískra ráðamanna í Ríad í Sádí Arabíu. Þar eru friðarmál í Úkraínu sögð rædd.
Svo virðist sem miðlar og ekki síst ríkismiðillinn Tass taki vel í þýðu í samskiptum Rússa og Bandaríkjanna.
Hins vegar er hvarvetna lítið gert úr leiðtogum Evrópu sem skildir voru eftir utan viðræðnanna. Eru þeir sagðir misskilja mikilvægi sitt og að Evrópa hafi verið höfð utan við viðræður sökum þess að áhrif ríkjanna þar fari dvínandi. Þá er einnig gert lítið úr leiðtogum í Kænugarði.
Hvarvetna má lesa í rússneskum miðlum gort sem snýr að mikilvægi Rússa á alþjóðasviðinu.
Götublaðið Moskovskí Komsomólets, sem sagt er með tengsl við Kreml, segir Trump velja að semja við Rússa því hann sjái að þar fari herliðið sem sé að vinna stríðið í Úkraínu.