Segir Rússlandi stjórnað af raðlygurum

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir Rússlandi stjórnað af raðlygurum sem verði að þrýsta á svo hægt sé að koma á friði í innrásarstríði þeirra í Úkraínu.

Ummælin lét Selenskí falla á samfélagsmiðlum í morgun og snúa að drónaárás Rússa á úkraínsku borgina Mykolaiv á sunnudag.

Rússlandi ekki treystandi

Á þeim tíma höfðu Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti þegar átt samræður um að hefja þyrfti tafarlaust viðræður um frið í innrásarstríði Rússlands í Úkraínu.

„Við megum aldrei gleyma að Rússlandi er stjórnað af raðlygurum,“ skrifar Selenskí. 

„Þeim er ekki treystandi og verður að beita þrýstingi. Í þágu friðar.“ 

Erindreki Trumps í Kænugarði með Selenskí

Var það svo á mánudag sem utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands hittust í Sádí-Arabíu þar sem rætt var m.a. mögulegt vopnahlé í Úkraínu. Eru þeir sagðir hafa skipað hópa til að semja um endalok stríðsins í Úkraínu „með varanlegum hætti, sjálfbærum og sem allar hliðar geta unað við“.

Selenskí, auk fjölda annarra, hefur gagnrýnt að Úkraína sé ekki hluti af viðræðunum og hefur sagt að engir samningar verði undirritaðir án aðkomu landsins.

Fyrr í dag mætti sérstakur erindreki Trumps í Úkraínu, Keith Kellogg, til Kænugarðs þar sem hann mun funda með Selenskí og öðrum embættismönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert