Segir Trump í rússneskri upplýsingaóreiðu

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir Donald Trump Bandaríkjaforseta lifa í rússneskri upplýsingaóreiðu.

Á blaðamannafundi í gær fór Trump um víðan völl og kenndi m.a. Úkraínu um að hafa hafið stríðið.

Það hófst þó þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2014 eða árið 2022, eftir því hvernig á það er litið.

Einnig hélt forsetinn því fram að fylgi Selenskís í heimalandi sínu væri gífurlega lítið, eða rúm 4%. Kannanir sýna þó annað.

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu talar um ummæli Trumps frá í …
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu talar um ummæli Trumps frá í gær. AFP

Losuðu Pútín úr áralangri einangrun

Bergmálaði þannig Trump athugasemdir sem heyrst hafa frá Rússum undanfarin þrjú ár.

Á blaðamannafundi í Kænugarði í dag sagði Selenskí að þessi upplýsingaóreiða Trumps hefði sést áður og að vitað væri að hún kæmi frá Rússlandi. Kvaðst hann hafa sannanir fyrir því að tölurnar sem Trump vitnaði í hefðu verið ræddar á milli Bandaríkjanna og Rússlands.

Tók hann fram að þó að hann bæri mikla virðingu fyrir Trump, virtist svo vera að hann væri umkringdur upplýsingaóreiðu Rússa.

Þá sagði hann Bandaríkin einnig hafa hjálpað til við að losa Vladímir Pútín Rússlandsforseta úr áralangri einangrun með því að hafa átt samskipti við Pútín og boðað til viðræðna.

Selenskí hefur ítrekað að engir friðarsamningar verði undirritaðir af hálfu Úkraínu án aðkomu landsins. 

Vill kosningar í Úkraínu

Í ljósi viðræðna Bandaríkjanna og Rússlands hafa ráðamenn í Úkraínu og víðar áhyggjur af því að ríkið þurfi að gefa mikið eftir, eigi friður að nást. 

Til að mynda stakk Trump upp á því á blaðamannafundi sínum í gær að kosningar yrðu haldnar í Úkraínu, en það er ein af kröfum Rússlands. Þess ber að geta að í sjálfu Rússlandi eru ekki haldnar alvöru kosningar.

Sagði Trump að uppástungan væri hans eigin og frá öðrum löndum, en ekki Rússlandi.

Þá sagði hann að langt væri síðan kosningar hefðu verið haldnar í Úkraínu en þess ber líka að geta að Selenskí var kjörinn forseti landsins árið 2019 til fimm ára. Hann hefur hins vegar haldist leiðtogi landsins þar sem herlög gilda í landinu, sökum innrásar Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert