Keith Kellogg, sérstakur erindreki Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Úkraínu, er mættur til Kænugarðs þar sem hann mun funda með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta og öðrum embættismönnum.
Úkraínski miðillinn Suspilne greinir frá því að sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, Bridget Brink, hafi í morgun tekið á móti Kellogg er hann mætti með lest til Kænugarðs.
Fundurinn varðar friðarviðræður Bandaríkjanna og Rússlands um frið í innrásarstríði Rússlands í Úkraínu en viðræðurnar hafa átt sér stað án aðkomu Úkraínu.
Kellogg hefur áður sagt að engum samningum verði þröngvað upp á Úkraínumenn.
Þá hefur Selenskí sagt að engir friðarsamningar verði undirritaðir án aðkomu Úkraínu.