Virðist skella skuldinni á Úkraínumenn

Donald Trump gerir að því skóna að ábyrgð Úkraínumanna sé …
Donald Trump gerir að því skóna að ábyrgð Úkraínumanna sé mikil. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist telja ábyrgð Úkraínumanna mikla þegar kemur að stríðsrekstri Rússa í Úkraínu. Segir hann það vonbrigði að Úkraínumenn hafi ekki samið um stríðslok fyrr.

Orðin lét Trump falla eftir fund Sergei Lavrov og Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands, eftir fund þeirra í Riyad í Sádí-Arabíu til að ræða stríðsreksturinn.

Samkomulag náðist um að semja um stríðslok á milli þeirra, og mun nefnd eða nefndir vinna að niðurstöðu.

Lavrov sagði eftir fundinn að hann myndi ekki samþykkja að hermenn Nato kæmu að friðargæslu á landamærum Úkraínu og Rússlands.

Trump sagði við fréttamenn í gær spurður um skilaboð til Úkraínumanna sem fengu ekki sæti á fundinum í Sádí-Arabíu að hægt hefði verið að semja um stríðslok fyrir löngu.

„Mér skilst að Úkraínumenn séu ósáttir við að hafa ekki fengið sæti við borðið. Þeir hafa verið með sæti við borðið í þrjú ár og löngu fyrir það. Það hefði verið hægt að semja um málið fyrir löngu,“ segir Trump.

„Þið hefðuð aldrei átt að byrja það (stríðið). Þið hefðuð getað samið,“ segir Trump.

„Ég hefði getað samið fyrir Úkraínu. Þannig hefðu þið getað haldið nær öllu landinu, öllu, næstum öllu landinu - og ekkert fólk hefði þurft að deyja, og engin borg verið eyðilögð,“ bætti Trump við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert