Ekki ljóst hvað gekk á klukkutímana fyrir árásina

Margir hafa vottað virðingu sína við skólann þar sem árásin …
Margir hafa vottað virðingu sína við skólann þar sem árásin átti sér stað. AFP

Sænsk lögregluyfirvöld leita nú upplýsinga sem geta skýrt hvað Rickard Andersson gerði klukkutímana áður en að hann skaut 10 manns til bana í Örebro í Svíþjóð í upphafi mánaðar. Enn er ekki ljóst hvaða hvata Andersson hafði til þess að fremja morðin.

Lögregluyfirvöld telja sig hafa nokkuð skýra sýn á því hvað átti sér stað þennan örlagaríka dag, vitað er að Andersson tók strætisvagn að götu nálægt skólanum rétt fyrir átta um morguninn á árásardeginum. Árásin hófst í kringum hálftólf en ekki er vitað hvað átti sér stað þess á milli.

Birt hefur verið mynd af Andersson degi fyrir árásina, hann er þar svartklæddur frá toppi til táar og með IKEA-poka og gítartösku meðferðis. Eins og áður segir er ekki vitað hvers vegna Andersson lét til skarar skríða.

Árásin hefur vakið óhug meðal sænskra innflytjenda

Þrátt fyrir að lögreglan hafi ekki birt nöfn þeirra sem létust hafa sænskir fjölmiðlar birt nöfn og myndir af þeim látnu, öll voru þau af erlendum uppruna og hefur árásin vakið upp ótta meðal sænskra innflytjenda.

Andersson hafði skotvopnaréttindi og var skráður fyrir fjórum skotvopnum sem skráð voru sem vopn til þess að nota til veiða. Fyrir árásina hafði Andersson aldrei komist í kast við lögin en honum hefur verið lýst sem einangruðum manni sem hafði lengi verið án atvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert