Ekki um lík Shiri Bibas að ræða

Shiri, Ariel og Kfir Bibas. Lík, sem að sögn Hamas-liða …
Shiri, Ariel og Kfir Bibas. Lík, sem að sögn Hamas-liða átti að vera af móðurinn, reyndist ekki af henni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ísraelski herinn hefur nú tilkynnt Bibas-fjölskyldunni að líkin, sem Hamas-hryðjuverkasamtökin afhentu Rauða krossinum í morgun, fimmtudagsmorgun, séu af börnunum Ariel og Kfir Bibas.

Þriðja líkið reyndist hins vegar ekki vera af móður þeirra, Shiri Bibas, eins og Hamas liðar létu í veðri vaka er þeir afhentu jarðneskar leifar fólksins.

Myrtir á hrottalegan hátt

Enn fremur hefur rannsókn líkanna, á Abu Kabir Forensic Institute, leitt í ljós að drengirnir tveir, Ariel, fjögurra ára, og Kfir, sem var fjögurra mánaða, hafi verið „myrtir á hrottalegan hátt“ í nóvember 2023 og hafi Hamas-liðar verið þar að verki að sögn hersins.

„Þarna er á ferð grafalvarlegt brot Hamas-hryðjuverkasamtakanna sem samkvæmt samkomulagi var gert að skila líkum fjögurra gísla,“ segir í tilkynningu hersins. „Við krefjumst þess að Hamas skili Shiri [Bibas] heim ásamt öllum öðrum gíslum,“ segir þar enn fremur.

Ísraelsforseti, Isaac Herzog, lýsti því yfir síðdegis í dag að hjörtu heillar þjóðar væru í molum eftir að Hamas-samtökin afhentu Rauða krossinum líkin fjögur.

Times of Israel

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert