Fundar með erindreka Trumps

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, í gær.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, í gær. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti mun í dag funda með erindreka Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Úkraínu, Keith Kellogg. Fundurinn mun eflaust vekja athygli sökum þeirra ummæla sem Trump hefur látið falla um Selenskí undanfarinn sólarhring.

Hefur Bandaríkjaforsetinn m.a. kallað Selenskí einræðisherra og sagt Rússland halda á spilunum hvað varðar samningaviðræður.

Ummæli Trumps hafa fengið mikla gagnrýni. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði það vera rangt og hættulegt að kalla Selenskí einræðisherra.

Fyrrverandi varaforsetinn ósammála Trump

Trump hefur einnig látið þau ummæli falla að Úkraína hafi í raun byrjað stríðið og það hefur fyrrverandi varaforseti hans, Mike Pence, gagnrýnt.

Sagði Pence Úkraínu ekki hafa byrjað stríðið heldur hafi það byrjað þegar Rússland hóf hrottalega innrás inn í landið sem hefur síðan þá kostað „hundruð þúsunda lífa“.

Þá hefur talsmaður Evrópusambandsins, Stefan de Keersmaecker, sagt Úkraínu vera lýðveldi á meðan Rússland undir stjórn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta sé það ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert