Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur staðið sig hræðilega í stríðinu og hefði getað tekið þátt í viðræðunum við Rússa í Sádi-Arabíu ef hann hefði viljað.
Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á viðskiptaráðstefnu í Miami.
„Kannski vill hann bara halda peningavélinni gangandi. Ég veit ekki hvert vandamálið er. Selenskí hefði getað tekið þátt í fundi bandarískra og rússneskra erindreka í Sádi-Arabíu ef hann hefði viljað,“ sagði Trump og ítrekaði að Úkraínuforsetinn sé einræðisherra.
Í gær hitti Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, rússneska kollega sinn, Sergei Lavrov, í Sádi-Arabíu, þar sem fundarefnið var að semja um stríðslok.
„Okkur var ekki boðið á fund Rússa og Bandaríkjamanna í Sádi-Arabíu. Það kom okkur á óvart eins og mörgum öðrum. Okkur var tilkynnt um þetta í gegnum fjölmiðla,“ segir Selenskí.
Trump hefur gagnrýnt Selenskí harðlega á síðustu dögum og hefur haldið því fram að hann hafi grafið undan lýðræðinu og hefur sakað hann um að hefja stríðið sem hófst með innrás Rússa í Úkraínu fyrir þremur árum.