Lík fjögurra gísla sem voru í haldi Hamas-samtakanna var komið í hendur starfsmanna Rauða krossins fyrir skemmstu. Meðal þeirra eru móðir og tvö ung börn hennar. Hamas-samtökin segja hana og börn hennar hafa fallið í loftárás Ísraelsmanna.
Rauði krossinn veitti líkunum móttöku. Fjórða líkið er af Oded Lifschitz, fyrrverandi blaðamanni á níræðisaldri sem var þekktur aðgerðarsinni í þágu friðar.
Eiginkona hans, Yocheved, var einnig tekin sem gísl þann 7. október árið 2023. Henni var síðar sleppt. Að sögn hennar var farið með þau hjónin í vef neðanjarðarundirganga þar sem þeim var haldið í gíslingu.
Móðirin heitir Shiri Bibas, 32 ára, og var hún tekin af Hamas-liðum ásamt tveimur ungum börnum hennar sem voru fjögurra ára og níu mánaða. Segja Hamas-liðar að þau hafi látist um mánuði eftir gíslatökuna í loftárás Ísraelsmanna. Faðir barnanna var látinn laus fyrir skemmstu.