Þúsundir mótmælenda komu saman víðs vegar um Bandaríkin á mánudag, á degi forsetans, til að mótmæla forsetatilskipunum Donalds Trumps. Mótmælin hafa verið kölluð „50501 mótmælin“ en talan stendur fyrir 50 mótmæli í 50 ríkjum Bandaríkjanna á einum degi.
Mótmælin beindust einna helst að þeim forsetatilskipunum er varða réttindi hinsegin fólks. Þá var hlutverki Elon Musks innan ríkisstjórnar Trumps mótmælt.
Trump undirritaði þó nokkrar forsetatilskipanir þegar hann tók við embætti forseta sem varða réttindi trans fólks.
Bannaði hann meðal annars trans konum að taka þátt í íþróttum kvenna auk þess sem hann undirritaði tilskipun þess efnis að í bandaríska hernum yrði ekki lengur stuðst við það sem forsetinn vísar til sem „trans-hugmyndafræði“.
Mótmælendur gengu um í fötum merktum bandaríska fánanum og veifuðu honum sömuleiðis. Sungu þeir þjóðsönginn og vildu þar með eigna sér hann aftur.
„Þetta er okkar þjóðsöngur. Fáninn okkar. Við eigum hann,“ sagði Shawn Morris, einn mótmælanda og forseti kórs samkynhneigðra í Washington.
Morris sagðist hafa miklar áhyggjur af þeim tilskipunum Trumps er snúa að réttindum hinsegin fólks. Lýsti hann meðal annars áhyggjum yfir því að hjónabönd samkynhneigðra yrðu hugsanlega bönnuð í forsetatíð hans.