Rússland hefur endurheimt 64% af því svæði sem Úkraína tók yfir í gagnárás sinni í Kúrsk-héraði í Rússlandi.
Úkraínski herinn gerði gagnárás í héraðinu í ágúst á síðasta ári og svo aftur í byrjun síðasta mánaðar.
Að sögn yfirmanns í rússneska hernum, Sergei Rudskoi, hefur meira en 800 ferkílómetrum verið náð til baka sem samsvarar 64% af því landsvæði sem úkraínski herinn tók yfir. Byggt á þeirri yfirlýsingu eru enn rúmlega 400 ferkílómetrar í héraðinu á valdi úkraínska hersins.
Yfirmaður í úkraínska hernum, Olaksandr Syrsky, sagði í síðustu viku að um 500 ferkílómetrar af héraðinu væru undir stjórn hersins en landsvæðið er talið spila mikilvægan þátt þegar kemur að því að ná samkomulagi um að ná friði í innrásarstríði Rússa.
Að sögn Rudskoi eru nú rússneskar hersveitir að ná yfirráðum á svæðinu þar sem þær komast áfram úr öllum áttum. Þá sagði hann rússneska herinn hafa náð um 75% af úkraínsku héruðunum Donetsk, Zaporizhzhia og Kherson á sitt vald og að Úkraína hefði stjórn yfir minna en einu prósenti af Lugansk-héraðinu. Nokkrum mánuðum eftir innrás sína í Úkraínu tilkynnti Rússland að héruðin væru innlimuð þrátt fyrir að herinn hefði ekki náð yfir öll landsvæðin.
Segir Rudskoi að síðan í byrjun árs hafi Rússland tekið yfir 600 ferkílómetra af landsvæði í Úkraínu og að stjórn Úkraínu muni ekki lengur geta breytt stöðunni verulega á vígvellinum.
Árið 2024 sagði Rudskoi að Rússland hefði náð yfir 4.500 ferkílómetrum af landsvæði í Úkraínu og kallaði hann það metár.