Segir að Trump vilji verða alheimskeisari

Lula gagnrýndi Trump í útvarpsviðtali í dag.
Lula gagnrýndi Trump í útvarpsviðtali í dag. AFP

Luiz Ignacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, segist telja að Donald Trump Bandaríkjaforseti vilji verða alheimskeisari. Ummælin féllu í viðtali á brasilískri útvarpsstöð í dag.

Lula bað Trump svo vinsamlegast um að láta fullveldi annarra þjóða í friði. 

Sagði hann að þau lýðræðissamfélög sem hefðu byggst upp eftir seinni heimsstyrjöld væru byggð á bestu stjórnarháttum sem vitað væri um og Trump væri að ógna þeim með því að skipta sér um of af málefnum annarra þjóða. 

Ummæli Lula koma í kjölfar þess að Trump kallaði Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, einræðisherra og sakaði hann um að bera ábyrgð á stríðinu þar í landi, sem Rússar hófu þó með innrás sinni.

Lula og Trump hafa ekki rætt saman frá því að Trump tók við embætti í seinasta mánuði. Lula ítrekaði samt sem áður að viðskiptasamband Brasilíu og Bandaríkjamanna væri mikilvægt og bað Trump að sýna Brasilíumönnum aukna velvild en Trump tilkynnti í gær aukna tolla á tilteknar vörur innfluttar frá Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert