Norska Stórþingið samþykkti á miðvikudag að veita lögreglu auknar heimildir til að framkvæma vopnaleit á fólki á vissum svæðum, þar sem mikið hefur verið um beitingu hnífa og skotvopna, án þess að sérstakur grunur liggi fyrir um að viðkomandi beri vopn.
Verður framkvæmdin þannig að skilgreind verða sérstök svæði, visitasjonssoner, einfaldlega leitarsvæði, og innan marka þeirra verði lögreglu heimiluð líkamsleit að vopnum bjóði henni svo við að horfa.
Hefur Stórþingið beint því til ríkisstjórnarinnar að leggja fram tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum eigi síðar en í september, sem leyfi nýja fyrirkomulaginu fram að ganga, en þess má geta að ríkisstjórnin sjálf er mótfallin þessari breytingu. Hins vegar nægðu atkvæði Framfaraflokksins, Hægriflokksins og Miðflokksins, sem Kristilegi þjóðarflokkurinn ákvað í síðustu viku að veita stuðning sinn, til þess að veita líkamsleitarmálinu brautargengi.
Samkvæmt Helge André Njåstad, þingmanni Framfaraflokksins og nefndarmanni í dómsmálanefnd Stórþingsins, munu leitarsvæðin miðast við hvar mest hefur verið um afbrot og vopnabeitingu síðustu misseri.