Áætlun árásarmannsins var að „drepa gyðinga“

Lögreglan í Berlín segir að árásarmaðurinn „vildi drepa gyðinga“.
Lögreglan í Berlín segir að árásarmaðurinn „vildi drepa gyðinga“. AFP

Sýrlenskur hælisleitandi, sem grunaður er um hnífstunguárás við minnisvarða um helförina í Berlín í Þýskalandi í gær, var með „áætlun um að drepa gyðinga“ að sögn lögreglu og saksóknara. 

Maðurinn, sem er 19 ára, var handtekinn í gær með blóðugar hendur, en hann var með Kóraninn og bænateppi með sér.

Fyrstu rannsóknir lögreglu benda til „tengsla hans við átökin í Miðausturlöndum“. 

Stakk manninn í hálsinn

Árásarmaðurinn fór aftan að fórnarlambinu, þrítugum spænskum manni, og stakk hann í hálsinn með hníf. 

Hann hlaut lífshættulega áverka á hálsi og þurfti að leggja hann í dá, en hann er ekki lengur í lífshættu. 

Sex manns urðu vitni að stunguárásinni og fengu í kjölfarið aðstoð frá björgunaraðilum á vettvangi.

Kom til landsins árið 2023 sem fylgdarlaust barn

Hinn grunaði kom til Þýskalands árið 2023 sem fylgdarlaust barn, að sögn lögreglu. Hann fékk hæli og bjó í austurborginni Leipzig. 

Engar vísbendingar eru um tengsl hans við annað fólk eða hópa og hinn grunaði hafði ekki áður komið við sögu lögreglunnar í Berlín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert