Macron segir óyggjandi að um hryðjuverk íslamista hafi verið að ræða

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræðir árásina í Mulhouse þar sem hann …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræðir árásina í Mulhouse þar sem hann er staddur á landbúnaðarsýningunni Salon International de l'Agriculture í París í dag. Kveður hann engan vafa leika á því að um hryðjuverkaárás íslamista sé að ræða. AFP/Mohammed Badra

Frönsk lögregla rannsakar árás tæplega fertugs manns frá Alsír í bænum Mulhouse í austurhluta landsins í dag sem hryðjuverk, þetta staðfestir PNAT, skrifstofa hryðjuverkarannsókna franska ríkissaksóknarans við fjölmiðla.

Einn lést í árásinni og að minnsta kosti tveir særðust, ekki fimm svo sem fyrstu fréttir af atburðinum hermdu, og er nú komið í ljós að tveir lögregluþjónar hlutu alvarleg sár er þeir þustu til að skakka leikinn eftir að maðurinn lét til skarar skríða á markaði þar í bænum þar sem mótmælastaða til stuðnings Lýðveldinu Kongó fór fram.

Sá sem lést var vegfarandi sem gerði tilraun til að stöðva árásarmanninn er lögregla handtók skömmu síðar á vettvangi. Hrópaði maðurinn lofsyrði til Allah, guðs múhameðstrúarmanna, en eins og greint var frá í fyrri frétt mbl.is í kvöld var nafn árásarmannsins alsírska að finna á válista franskra yfirvalda yfir hugsanlega hryðjuverkamenn.

Sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti í ávarpi nú fyrir skömmu að „enginn vafi“ léki á því að um hryðjuverkaárás íslamista hafi verið að ræða.

„Ég ítreka einhug ríkisstjórnarinnar, og minn, um að uppræta hryðjuverk í landi okkar,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu.

France 24

BBC

Sky News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert