Mæri og Raumsdalur skáka Róm í hitastigi

Þorpið Eidsdal í Mæri og Raumsdal heyrir undir sveitarfélagið Norddal …
Þorpið Eidsdal í Mæri og Raumsdal heyrir undir sveitarfélagið Norddal þar sem hiti mældist 17,6 gráður í nótt. Ljósmynd/Wikipedia.org/Frokor

Hvert hitametið hefur í dag rekið annað í Noregi og greindi norska ríkisútvarpið NRK frá því í morgun að hitastig í Norddal í vesturstrandarfylkinu Mæri og Raumsdal hefði í nótt mælst nokkru hærra en í portúgölsku og ítölsku höfuðborgunum, Lissabon og Róm.

Mældist hitinn í Norddal 17,6 gráður í næturhúminu samtímis því sem hann var 14 gráður í Lissabon og 13 í Róm.

„Einfaldasta skýringin er sú að norður í Noregshafi er lægð sem beinir heitu lofti úr suðvestri inn yfir landið,“ segir Gjermund Haugen, vakthafandi veðurfræðingur norsku veðurstofunnar, við NRK til skýringar hitanum sem víða hefur sett met í landinu miðað við febrúarmánuð, þótt ekkert þeirra skáki landsmeti mánaðarins frá 23. febrúar 1990, 18,9 gráðum í Sunndalsøra sem einnig er í Mæri og Raumsdal.

Þó bráðabirgðatölur enn sem komið er

Í Nordland-fylki hefur gamla febrúarhitametið, 11,8 gráður, nú verið rækilega slegið með mest 13,4 gráðum í Sandnessjøen í dag auk þess sem 12,4 og 12,2 gráður hafa einnig mælst þar í fylkinu, í Reipå og Lurøy og Glomfjord.

Tekur Haugen þó fram að enn sem komið er sé um bráðabirgðatölur að ræða sem formlega séu óstaðfestar.

Einnig litu ný hitamet, til bráðabirgða, dagsins ljós í Vestland-fylki og Þrændalögum, en hitastig í Noregi hefur, eins og víðar um heimsbyggðina, mælst mjög hátt í sögulegu samhengi síðustu ár.

NRK

Dagbladet

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert