Ísraelsmenn segja að ísraelsku börnin Ariel og Kfir Bibas, sem tekin voru í gíslingu 7. október 2023, hafi verið myrt af hryðjuverkasamtökunum Hamas.
Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði að niðurstöður krufningar bentu til þess að drengirnir hefðu verið myrtir með berum höndum aðeins um mánuði eftir að Hamas-samtökin tóku börnin. Hamas hafna fullyrðingum Ísraelsmanna.
Hamas höfðu áður sagt að börnin hefðu dáið í haldi þeirra vegna loftárása Ísraelsmanna, en færðu engar sannanir fyrir því.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Hagari bætti því við að gögnunum yrði deilt með bandamönnum Ísraels svo þeir gætu sjálfir staðfest niðurstöðurnar.
Hamas afhenti lík drengjanna á fimmtudaginn ásamt tveimur öðrum líkum. Annað líkið var af níræðum gísl sem Hamas tók 7. október og hitt líkið átti að vera af Shiri Bibas, móður drengjanna tveggja.
Niðurstaða krufningar Ísraelsmanna er þó sú að hér sé ekki um að ræða Shiri Bibas.
Hamas-samtökin hafa beðist afsökunar á því að afhenda vitlaust lík og segja að þeir hafi ruglast á líkum sem voru undir rústum eftir loftárásir. Afhentu þeir svo í gær líkið af henni.
Ariel bibas var fjögurra ára gamall þegar hann var tekinn og Kfir Bibas var níu mánaða.
66 gíslar eru enn í haldi Hamas á Gasa en í yfirstandandi vopnahléi hafa Hamas afhent 28 gísla, bæði látna og lifandi, og Ísraelsmenn hafa afhent Hamas yfir eitt þúsund palestínska fanga úr ísraelskum fangelsum.