AfD réttir fram höndina til CDU

Alice Weidel, leiðtogi AfD.
Alice Weidel, leiðtogi AfD. AFP/Ralf Hirschberger

Þýski þjóðernisflokkurinn AfD tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og leiðtoginn segir að um sé að ræða söguleg úrslit.

„Við höf­um náð sögu­leg­um úr­slit­um,“ sagði Alice Weidel, kansl­ara­efni AfD, í kjöl­far þess að út­göngu­spá­r birtust. 

Í ljós kom að flokkurinn væri með um 20% stuðning, eða tvöfalt meira en í síðustu kosningum.

Svokallaður eldveggur hefur verið myndaður af öðrum flokkum en AfD, þar sem þeir hafa sammælst um að vinna ekki með flokknum.

Það eru því litlar líkur á því að AfD sé á leiðinni í ríkisstjórn. 

Merz verður líklegast kanslari

Í kjölfar þess að útgönguspár voru birtar mættu leiðtogar flokkanna í sjónvarpssal og ræddu niðurstöðurnar.

Friederich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata (CDU), var ánægður með úrslitin en flokkurinn fær um 29% fylgi samkvæmt útgönguspám og Merz verður að öllum líkindum kanslari.

Hann ítrekaði að í kosningabaráttunni hefði hann sagt að CDU myndi ekki fara í ríkisstjórn með AfD. Alice Weidel sagði hins vegar þjóðina vera að kalla eftir samstarfi CDU og AfD.

„Verðum að sætta okkur við það“

„Við erum reiðubúin að vinna með hverjum sem er,“ sagði Weidel og bætti við að Þjóðverjar vildu breytingar.

„Þeir vilja í raun og veru samstarf milli CDU og AfD – það hefur verið útilokað, við verðum að sætta okkur við það eins og er.“

AfD er mjög umdeildur flokkur en hörð stefna hans í útlendingamálum virðist hafa skilað flokknum verulegu fylgi.

Á sama tíma er CDU einnig íhaldssamari undir stjórn Merz en áður, sérstaklega í útlendingamálum, og flokkurinn bætti við sig nokkru fylgi frá síðustu kosningum.

Tveir tveggja flokka stjórnir í boði

Weidel sagði að CDU þyrfti að útskýra nánar hvernig flokkurinn hygðist ná fram sínum áherslumálum í stjórn með Jafnaðarmannaflokknum og Græningjum, ef slík stjórn yrði mynduð.

Miðað við útgönguspár þá eru kannski bara tveir möguleikar í stöðunni fyrir CDU ef flokkurinn vill mynda tveggja flokka stjórn.

Það er annars vegar að mynda meirihluta með AfD, en slíkur meirihluti hefði 359 sæti á bak við sig í 630 manna þingi, eða mynda meirihluta með Jafnaðarmannaflokknum sem hefði 328 sæti á bak við sig. Jafnaðarmenn fengu sína verstu útkomu frá upphafi í kosningunum. 

Stjórnarmyndunarviðræður í Þýskalandi geta tekið langan tíma en Merz kveðst vilja klára þær fyrir páska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert