Rússar skutu 267 drónum í einni árás á Úkraínu í nótt en ekki hafa fleiri drónar verið notaðir í einni árás frá því innrás Rússa hófst í febrúar 2022, að sögn Júrí Ignat, talsmanns úkraínska flughersins.
138 drónar voru skotnir niður af loftvarnakerfum en 119 þeirra „týndust“ án þess að valda skaða, að því er Ignat segir í færslu á Facebook.
Hann sagði ekki hvað varð um þá tíu sem eftir voru en í yfirlýsingu hersins á Telegram sagði að nokkur svæði, þar á meðal Kænugarður, hefðu orðið fyrir árás.
Rússnesk flugskeytaárás seint í gærkvöldi varð einum að bana og fimm til viðbótar særðust í bænum Kríví Rig, að sögn yfirvalda.
Til að reyna að koma í veg fyrir daglegar loftárásir Rússa hefur Úkraínuher oft reynt að trufla Rússa langt frá vígstöðvunum, til dæmis með því að ráðast beint á herstöðvar og iðnaðarsvæði innan Rússlands.
Tuttugu úkraínskir drónar sem skotið var á loft gegn Rússlandi voru „eyðilagðir“ í nótt, að því er rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í tilkynningu í morgun.
Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 og segja stjórnvöld í Kreml að markmið þeirra sé að verja sig gegn útþenslu NATO.