Bresk hjón á áttræðisaldri hafa verið handtekin af Talíbönum í Afganistan. Sunday Times greinir frá.
Hjónin Peter Reynolds, 79 ára, og Barbie, 75 ára, voru á heimleið í Bamiyan þann 1. febrúar þegar þau voru hneppt í varðhald.
Ekki er vitað nákvæmlega fyrir hvað hjónin voru handtekin en frá árinu 2009 hafa þau rekið þjálfunarverkefni í fimm skólum í Kabúl og eitt verkefni í Bamiyan þar sem mæðrum og börnum er veitt þjálfun.
Höfðu þau fengið samþykki fyrir verkefninu af bæjaryfirvöldum, þrátt fyrir bann talíbana við því að konur hefðu atvinnu og við menntun stúlkna eldri en 12 ára.
Hjónin kynntust upphaflega í Háskólanum í Bath á Englandi en þau giftust í Kabúl, höfuðborg Afganistan, árið 1970.
Þegar Talíbanar tóku aftur við völdum í ágúst 2021 yfirgaf stærstur hluti starfsfólks þeirra landið, ásamt flestum Vesturlandabúum, en Reynolds-hjónin héldu kyrru fyrir.