Frans páfi segist vongóður

Frans páfi hefur legið á spítala í rúma viku.
Frans páfi hefur legið á spítala í rúma viku. AFP

Frans páfi er vongóður um að læknismeðferð sem hann undirgengst muni skila árangri. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var í stað vikulegrar Angelusar-bænar hans.

Páfinn ávarpar vanalega fjöldann á Péturstorgi í Vatikaninu með Angelusar-bæninni en þetta er aðra vikuna í röð sem hann forfallast.

Frans páfi, sem er 88 ára gamall, var lagður inn á spítala fyrir rúmri viku vegna berkjubólgu. Hann hefur síðan þá greinst með alvarlega lungnabólgu og er sagður í lífshættu.

Þakkar fyrir teikningarnar

Í tilkynningunni þakkar páfinn allar þær batakveðjur sem honum hefur borist og segist sérstaklega djúpt snortinn vegna fjölmargra teikninga sem honum hefur borist frá ungum börnum.

Í lok tilkynningarinnar minntist páfinn þess að á morgun verða liðin þrjú ár frá innrás Rússa í Úkraínu. Stríð sem að hann segir að sé til skammar fyrir mannkynið. Hann segist biðja fyrir friði á öllum stríðshrjáðum svæðum heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert