Þjóðverjar ganga til þingkosninga í dag. Kosningabaráttan hefur verið hörð en nokkuð snörp í kjölfar þess að ríkisstjórn Sósíaldemókrata undir forystu Olafs Scholz sprakk í lok árs í fyrra. Kjörstaðir verða opnir til klukkan 18 að staðartíma.
Ljóst þykir að Kristilegir demókratar undir stjórn Friedrich Merz muni hljóta bestu kosninguna og því yfirgnæfandi líkur á því að Merz verði næsti kanslari Þýskalands.
Sá flokkur sem mælist með næstmesta fylgið og töluvert meira fylgi en Sósíaldemókratar er þjóðernisflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD).
AfD hefur risið hratt síðastliðin ár en flokkurinn var stofnaður árið 2013 og hlaut aðeins tíu prósent fylgi í þingkosningum árið 2021.
Nú mælist flokkurinn hins vegar með rúm tuttugu prósent og er talið ljóst að flokkurinn verði sá næststærsti á þýska þinginu í kjölfar kosninga.
Alice Weidel er leiðtogi AfD en hún hefur gegnt því hlutverki frá árinu 2017. Hún var útnefnd kanslaraefni flokksins í lok síðasta árs.
AfD virðist ætla að vinna stóra sigra í austurhluta Þýskalands. Sá hluti landsins hefur lengst af verið höfuðvígi Sósíaldemókrata.
Í borginni Duisburg sem er í vesturhluta landsins hafa Sósíaldemókratar lengst af unnið stórsigra í kosningum.
Efnahagsleg niðursveifla í borginni hefur hins vegar valdið því að AfD mælist nú stærsti flokkurinn í borginni.
Ludger Schulppen, íbúi í Duisburg sem kaus lengi vel Sósíaldemókrata, hefur nú skipt yfir í AfD. Hann segir að borgin líði fyrir mikinn straum innflytjenda sem innviðir borgarinnar ráði ekki við.
Hann vinnur hjá stálrisanum Thyssenkrupp sem að nýlega sagði upp tíu þúsund starfsmönnum.
Við lok seinni heimsstyrjaldar tók borgin á móti miklum fjölda af innflytjendum. Til að mynda kom mikið af fólki frá Ítalíu og Tyrklandi til borgarinnar eftir stríð.
Fyrir um 10 árum síðan byrjuðu að streyma til borgarinnar innflytjendur frá Mið-austurlöndum og að sögn Schulppen hafa fylgt því vandamál.
„Fólkið sem kemur til Duisburg er fólk sem kemur hingað til þess að ná í bætur en ekki til þess að vinna og hjálpa efnahaginum. Þetta var ekki svona, margir af mínum vinnufélögum komu hingað fyrir mörgum árum og fóru strax að vinna.“
Þess má geta að sendingarþjónustan DHL hætti í fyrra að fara með sendingar á ákveðna staði í borginni sökum þess að ekki var talið hægt að tryggja öryggi starfsmanna þeirra.