Elon Musk, einn helsti ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, segir að allir bandarískir ríkisstarfsmenn þurfi að sýna fram á að þörf sé á þeim, ef þeim tekst það ekki þá missi þeir vinnuna.
Elon Musk fer fyrir sérstakri stofnun sem hefur það verkefni að hagræða í ríkisrekstri (DOGE). Allir ríkisstarfsmenn Bandaríkjanna hafa nú fengið sendan tölvupóst þar sem þeir eru beðnir um að gera grein fyrir þeim verkefnum sem þeir hafa sinnt í síðastliðinni viku, Musk segir að það að svara ekki póstinum sé ígildi uppsagnar.
„Svörin við póstinum hafa mörg hver verið mjög góð, þeir sem svara á þann hátt er fólk sem á skilið stöðuhækkun,“ segir Musk á samfélagsmiðli sínum, X.
Samband bandarískra ríkisstarfsmanna, sem er stærsta stéttarfélag ríkisstarfsmanna í Bandaríkjunum, segist ætla að taka hart á því ef félagsmönnum félagsins verður sagt upp á ólögmætan hátt.
„Það er mikil og gróf vanvirðing fyrir þau hundruð þúsunda sem sinna verkefnum í þágu hins opinbera að ríkur ólýðræðislega kjörinn maður, sem er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann, sé að biðja þau um að sýna sérstaklega fram á mikilvægi sitt,“ segir Everett Kelley formaður stéttarfélagsins.
Fjölmargir ríkisstarfsmenn hafa greint frá því að vinnuveitendur þeirra hafi ráðlagt þeim að svara ekki póstinum. Dýralæknir sem starfar á vegum ríkisins segir að hann ætli sér ekki að vanrækja raunverulegar skyldur sínar til þess að eyða tíma sínum í að svara póstinum. Musk hefur þó sagt að ekki séu gerðar miklar kröfur til innihalds póstsins.
Trump hefur hrósað Musk og sagt hann vera að gera góða hluti, Musk þurfi þó að vera áræðnari að sögn Trump. Fleiri ríkisstarfsmönnum þurfi að vera sagt upp.
„Við elskum Elon, hann er áhugaverður maður. Fólk hefur spurt mig hvert hans starfsheiti sé, ég svara því á þann hátt að hann sé föðurlandsvinur,“ sagði Trump er hann ávarpaði stuðningsmenn sína í gær.
Musk sem stjórnar hagræðingastofnunni DOGE, eins og áður segir, segist vera til í að vinna fyrir Trump svo lengi sem hann getur gert eitthvað gagn.