Þjóðverjar ganga til kosninga

Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, á kosningafundi í …
Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, á kosningafundi í Oberhausen í Þýskalandi á föstudaginn. AFP/Volker Hartmann

Þjóðverjar ganga til kosninga í dag eftir harða kosningabaráttu þar sem efnahagsmál hafa verið í brennidepli en einnig hefur fjöldi mannskæðra árása gert fólksflutninga og öryggismál að lykilumtalsefni. BBC greinir frá.

Alls eru 59,2 milljónir Þjóðverja á kjörskrá og þótt milljónir þeirra hafi þegar kosið utan kjörfundar benda kannanir til þess að 20% þeirra hafi verið óákveðnir fyrir kjördag.

Kjörstaðir opnuðu klukkan 8 í morgun að staðartíma og verða opnir til klukkan 18 í kvöld.

Neitar að vinna með AfD

Friedrich Merz, leiðtogi íhaldsmanna, er talinn líklegur til að verða næsti kanslari Þýskalands.

Hann hefur lofað því að leysa flest vandamál á fjórum árum - en það er háleit krafa fyrir stærsta hagkerfi Evrópu þar sem innviðir eru að þolmörkum komnir.

Ef Kristilegir demókratar Merz (CDU) sigra þarf hann að mynda bandalag við að minnsta kosti einn annan flokk, líklegast Sósíaldemókrata Olafs Scholz, en ríkisstjórn hans féll í fyrra.

Í gærkvöldi sagðist Merz staðfastur í því að flokkur hans myndi ekki mynda stjórn með þjóðernisflokknum AfD, sem gæti orðið næststærsti flokkurinn á þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert