Volodimír Selenskí Úkraínuforseti kveðst tilbúinn að stíga til hliðar sem forseti gegn því að Úkraína fái inngöngu í Atlantshafsbandalagið (NATO).
Breska dagblaðið Telegraph greinir frá.
„Ef það verður friður í Úkraínu, ef þið þurfið endilega að fá mig til að hætta í mínu starfi, þá er ég tilbúinn. Ég get gert það í skiptum fyrir NATO,“ sagði Selenskí við blaðamenn fyrr í dag.
Ummælin koma í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti kallaði hann einræðisherra fyrir að halda ekki kosningar á stríðstíma.
Selenskí kvaðst aðeins vera umhugað um öryggi Úkraínu og að hann hefði ekki áhuga á því að verða forseti í áratug, en hann tók við embætti árið 2019.
Selenskí hefur talað fyrir inngöngu Úkraínu í NATO en ríkisstjórn Donalds Trumps hefur mótmælt því.
Athygli vakti á föstudagskvöld þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti vildi ekki svara því, spurður á blaðamannafundi í Hvíta húsinu, hvort hann teldi að Vladimír Pútín forseti Rússlands væri einræðisherra.
Degi áður hafði Trump fullyrt að Selenskí, sem kjörinn var forseti Úkraínu árið 2019, væri einræðisherra.
Pútín hefur stýrt landi sínu frá aldamótum og hefur ítrekað komið í veg fyrir að landsmenn hafi raunverulegt val um leiðtoga þegar gengið er til kosninga.
Trump svaraði spurningunni einungis á þá leið að hann teldi að Pútín og Selenskí þyrftu að koma saman til fundar. „Við viljum hætta að drepa milljónir manna,“ sagði Trump. Tala látinna í innrásarstríði Rússa er þó ekki talin hafa náð einni milljón, hvað þá milljónum.