Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óskað Kristilegum demókrötum til hamingju með sigurinn í þýsku þingkosningunum. Hann segir að Þjóðverjar hafi verið orðnir þreyttir á því hvernig útlendinga- og orkumálum var stjórnað í landinu.
Þjóðverjar gengu að kjörborðinu í dag og miðað við útgönguspár munu Kristilegir demókratar fá 28,5% atkvæða og leiðtogi flokksins, Friedrich Merz, verður því líklega næsti kanslari Þýskalands.
„Það lítur út fyrir að íhaldsflokkurinn í Þýskalandi hafi unnið mjög stórt,“ skrifar Trump á samfélagsmiðilinn sinn Truth Social.
Trump segir að ríkisstjórn Olaf Scholz, Þýskalandskanslara og leiðtoga Jafnaðarmanna, hafi rekið stefnu í berhöggi við almenna skynsemi í orku- og útlendingamálum.
„Fólkið í Þýskalandi varð þreytt á stefnunni rétt eins og í Bandaríkjunum,“ skrifaði Trump í hástöfum á samfélagsmiðilinn.
„Þetta er frábær dagur fyrir Þýskaland og fyrir Bandaríkin, undir stjórn herramanns sem heitir Donald J. Trump. Til hamingju allir – margir fleiri sigrar munu fylgja,“ skrifar Trump.