Trump þrýstir á frelsi Andrews Tates

Þeir virðast ná góðri tengingu, Andrew Tate og Donald Trump.
Þeir virðast ná góðri tengingu, Andrew Tate og Donald Trump. Samsett mynd/Instagram/JOE RAEDLE/AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þrýst á rúmönsk stjórnvöld að létta á ferðatakmörkunum sem sett voru á hinn umdeilda áhrifavald, Andrew Tate, að því er Forbes greinir frá.

Andrew Tate er fæddur í Bandaríkjunum en uppalinn í Bretlandi. Hann hefur afrekað ýmislegt og er m.a. fyrrum heimsmeistari í sparkboxi. Hann er einnig þekktur fyrir að koma fram í bresku útgáfunni af Big Brother-þáttunum.

Hann er þó hvað þekktastur fyrir veru sína á samfélagsmiðlunum X, Instagram og Youtube og er hann með yfir tíu milljón fylgjendur á X. Karlinn er umdeildur fyrir skoðanir sínar sem hafa þótt óviðeigandi og einkennast af ofbeldi, sérstaklega í garð kvenna, eða öllu heldur er hann „kvenhatari“, líkt og fram kemur á Forbes.

Tate hefur m.a. sagt opinberlega að fórnarlömb nauðgana verði að „bera ábyrgð“ á árásinni og að konur eigi heima inni á heimilunum.

Þá hefur hann einnig hleypt af stokkunum ýmsum prógrömmum á netinu, ætluðum að fræða unga karlmenn. Hann hefur þó fengið á sig ásakanir um að vera í raun að kenna karlmönnum að misnota konur.

Ákærður fyrir fjölda brota

Tate var handtekinn í Rúmeníu í desember 2022 og ákærður sex mánuðum síðar fyrir nauðgun, mansal og þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi. Hann hefur neitað öllum ásökunum.

Bróðir hans, Tristan Tate, var einnig handtekinn á sama tíma og stendur rannsókn málsins yfir. Brot Tate-bræðra ná einnig til Bretlands. Þá er til skoðunar hvort fórnarlömb bræðranna hafi í einhverjum tilfellum verið ólögráða einstaklingar.

Tate hefur ítrekað lofað Trump á samfélagsmiðlinum X og hvatti bandaríska fylgjendur sína til að kjósa forsetann meðan á kosningabaráttunni stóð 2024. Hann hefur einnig borið sig saman við forsetann, sagt þá báða hafa verið sakaða um kynferðisglæpi og að báðir hafi verið „svívirtir á gömlum upptökum“ sem gerðar voru opinberar.

Meðlimir í innsta hring Trumps, t.d. Donald Trump Jr., hafa kallað varðhald Tate í Rúmeníu „algjöra geðveiki“. Þá svaraði milljarðamæringurinn Elon Musk færslu Tate á X, um að kappinn ætlaði að bjóða sig fram til forsætisráðherra, og sagði ekkert rangt við að Tate tæki þátt í stjórnmálum í Bretlandi.

Forbes

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert