Steve Bannon, fyrrverandi aðstoðarmaður Donalds Trumps, vakti athygli í síðustu viku þegar hann virtist apa eftir meintri nasistakveðju Elons Musks þegar Bannon hélt ræðu á CPAC-ráðstefnu íhaldsmanna í Washington.
Handahreyfing hans varð til þess að forseti Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi aflýsti ræðu sinni á ráðstefnunni en Þjóðfylkingin er róttækur hægri flokkur.
„Berjist, berjist, berjist,“ hrópaði Bannon úr púlti og rak síðan útrétta hönd á loft með opinn lófa. Bannon þótti vísa til umdeildrar kveðju auðkýfingsins Elons Musks, sem var sakaður um að heilsa að nasistasið við innsetningarathöfn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í janúar.
Bannon þvertók fyrir það að þessi kveðja hefði nokkuð með nasista að gera, heldur væri hann aðeins að „veifa“.
Jordan Bardella, forseti Þjóðfylkingarinnar, átti að flytja ræðu á föstudag en sagðist í yfirlýsingunni hafa aflýst ræðunni vegna þess sem hann kallaði „hreyfingu sem vísaði til hugmyndafræði nasista“. Bannon var ekki sáttur.
„Ef hann aflýsti [ræðunni] vegna þess sem meginstraumsmiðlarnir sögðu um ræðuna mína, þá hlustaði hann ekki á ræðuna,“ sagði Bannon við Le Point inntur eftir viðbrögðum við aflýsingu Bardella.
„Ef það er satt er hann óverðugur um að leiða Frakkland. Hann er drengur, ekki maður.“
Þó Bannon segi handahreyfinguna hafa verið saklaust vink er ljóst að aðrir fundargestir hafi túlkað hana sem vísun í Musk og/eða nasista.
Þar má nefna Eduardo Verástegui, mexíkóskan leikara og íhaldsmann, sem flutti einnig ræðu á fundinum og apaði þar bæði eftir Musk og Bannon.
Verástegui vitnaði í Musk er hann sagði að „hjarta mitt færi til ykkar allra“ og vísaði svo til Bannons er hann hrópaði „berjist, berjist berjist,“ með útrétta hönd á lofti.