Þeir föðmuðust og tókust í hendur en þeir voru ekki sammála um allt.
Spennan var augljós á annars vinalegum fundi Trumps og Macron í dag þegar Macron truflaði Trump í miðri setningu til að leiðrétta ranga fullyrðingu um að Evrópa væri bara að lána Úkraínu pening og myndi fá hann til baka.
„Nei, í raun og veru, til að vera hreinskilinn,“ sagði Macron og snerti handlegg starfsbróður síns til að stöðva hann í miðri setningu, „við borguðum 60 prósent af heildarátakinu og það var - eins og Bandaríkin - lán, ábyrgðir, styrkir.“
„Ef þú trúir því, þá er það í lagi mín vegna,“ svaraði Trump glottandi.
Starfsbræðurnir hafa lengi vel sýnt vináttu sína og hlýju hvor við annan opinberlega með faðmlögum og handaböndum, allt frá fyrsta kjörtímabili Trump.
„Hann er klár viðskiptavinur,“ sagði Trump og bankaði ástúðlega á upphandlegg Macron eftir að hafa sagt sögu af fundi í París, þegar hann uppgötvaði að það sem Frakklandsforsetinn hafði sagt á móðurmáli sínu um viðskiptasamning nokkurn var ekki það sama og hann hafði sagt honum.
Macron brást við með því að grípa í hönd Trumps og þeir hlógu saman, Macron virtist jafnvel þurrka gleðitár úr augnkróknum.
Síðan á sameiginlegum blaðamannafundi deildu þeir enn einu handtaki og brostu sín á milli, áður en þeir hófu að hrósa hver öðrum.
Macron fagnaði vináttu þeirra frá fyrsta kjörtímabili Trump á meðan Trump hrósaði honum fyrir endurreisn á Notre-Dame dómkirkjunni.
„Skilaðu kveðju til fallegu konunnar þinnar,“ sagði Trump í lok blaðamannafundarins.
Oft þarf að lesa á milli línanna í samskiptum alþjóðlegra leiðtoga en Macron og Trump hafa alltaf verið óvenju hreinskilnir í því hvernig þeir nota líkamstjáningu sem valdaleik.
Frá því að þeir hittust fyrst hefur Macron snúið á venju Trumps við að nota yfirþyrmandi handaband til að koma öðrum leiðtogum heimsins - bæði í bókstaflegri og óeiginlegri merkingu - úr jafnvægi.
Starfsbræðurnir urðu fyrst forsetar landa sinna sama ár, árið 2017, og hittust þá í fyrsta skipti í Brussel.
Macron greip þá af miklu afli í hönd Trumps þar til hann neyddist - tvisvar - til að sleppa takinu.
Myndir sýndu hvít fingurmerki á höndum Trumps sem Macron skildi eftir sig.
Þetta hélt áfram ári síðar þegar Trump tók í hönd Macron og dró hann nánast inn í sporöskjulaga skrifstofu sína í Hvíta húsinu árið 2018, en þá nægði vináttan ein ekki til að sannfæra Trump um að halda sig áfram í Parísarsáttmálanum og alþjóðlegum samningi við Íran um að takmarka kjarnorkuáætlun sína.
Sambandið kólnaði á milli kjörtímabila Trumps, en Macron var fljótur að hafa aftur samband eftir endurkjör hans í nóvember 2024 og Trump var ánægður með að vera boðið að vera viðstaddur enduropnun Notre Dame-dómkirkjunnar í desember.
Nýjasta handaband vinanna, á blaðamannafundinum í dag, stóð í heilar 17 sekúndur.
Breski blaðamaðurinn Piers Morgan, mikill vinur Trumps, sagði nýjustu sýningu þeirra í Hvíta húsinu sýna að Macron vissi hvað hann væri að gera.
„Enginn leiðtogi heimsins höndlar Trump eins vel og Macron. Vingjarnlegur en ákveðinn, virðingarfullur en óhræddur við að svara honum þegar hann telur hann hafa rangt fyrir sér. Og Trump virðir hann fyrir það,“ sagði Morgan í færslu á X.