Sonja Sif Þórólfsdóttir
skrifar frá Kænugarði
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra lagði kerti til minningar um fallna hermenn við Sjálfstæðistorgið í Kænugarði í Úkraínu nú í morgun ásamt Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, og eiginkonu hans Olenu.
Leiðtogar Evrópu eru saman komnir í Kænugarði í dag. Þrjú ár eru frá því allsherjar innrás Rússa í Úkraínu hófst. Yfirskrift ráðstefnunnar er Styðjum Úkraínu.
Við torgið í miðborg Kænugarðs er fánaborg þar sem hver fáni táknar fallinn hermann í stríðinu við Rússlands. Myndir af föllnum hermönnum prýða minningarstaðinn.
Eftir minningarstundina lá leið leiðtoganna á hótel í borginni þar sem ráðstefnan fer fram. Ráð er gert fyrir að hún standi fram eftir degi og ljúki á blaðamannafundi. Í kjölfarið mun Selenskí forseti eiga fundi með leiðtogum G7-ríkjanna og síðar MB8-ríkjanna. Þá mun hann einnig funda með Justin Trudueau forsætisráðherra Kanada.