Líkti Bandaríkjum Trumps við Rússland

Merz ávarpar stuðningsmenn sína í gærkvöldi. Hann hefur verið ómyrkur …
Merz ávarpar stuðningsmenn sína í gærkvöldi. Hann hefur verið ómyrkur í máli í garð Bandaríkjanna síðan ljóst varð hvert stefndi í kosningum helgarinnar og krefst þess að Evrópa styrki varnir sínar. AFP/Odd Andersen

Friedrich Merz, verðandi kanslari Þýskalands, beið ekki eftir lokatölum þingkosninganna þar í landi um helgina með að tilkynna nýja tíma í Evrópu.

Lýsti Merz því yfir í gærkvöldi að stjórnvöldum í Bandaríkjunum væri hjartanlega sama um örlög Evrópu. Kvaðst hann fullur efasemda um framtíð Atlantshafsbandalagsins NATO og krafðist þess að Evrópuríki gerðu skurk í varnarmálum álfunnar. Tafarlaust.

Segja þýskir stjórnmálaskýrendur þennan tón Merz, eldheits stuðningsmanns náinna tengsla yfir Atlantshafið, hafa verið útilokaðan fyrir aðeins tveimur mánuðum.

„Þetta eru vatnaskil. Það kann að hljóma ýkjukennt, en það sem við nú horfum upp á í samskiptum yfir hafið er án hliðstæðu þau 80 ár sem liðin eru frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar,“ skrifar breska ríkisútvarpið BBC nú í morgun.

Undir þetta tekur Merz raunar:

„Ég hefði aldrei trúað því að ég þyrfti að segja eitthvað þessu líkt í sjónvarpsumræðu, en eftir athugasemdir Donalds Trumps í síðustu viku [...] er það öruggt mál að þessari ríkisstjórn [Bandaríkjanna] gæti ekki staðið meira á sama um örlög Evrópu,“ sagði Merz í sjónvarpsumræðum í gærkvöldi.

Ámóta öryggisógn og Rússland

„Mitt fyrsta forgangsmál verður að styrkja Evrópu svo fljótt sem verða má þannig að smám saman verðum við óháð Bandaríkjunum,“ sagði kanslarinn verðandi enn fremur.

Ýjaði Merz að svo örum breytingum í álfunni að hann kvaðst efast um að leiðtogar NATO-ríkjanna kæmu til með að hittast á NATO-ráðstefnunni í Haag í Hollandi í lok júní til að ræða stöðu bandalagsins í núverandi mynd þess, „eða hvort við munum neyðast til þess að koma upp óháðum evrópskum varnarvalkostum mun hraðar“, sagði Merz.

Líkti hann Bandaríkjum Donalds Trumps að lokum við Rússland – þau væru orðin ámóta öryggisógn gagnvart Evrópu. Evrópa væri nú milli steins og sleggju þar sem Bandaríkin og Rússland væru og því væri skjótra ákvarðana þörf.

Minntist hann á för Emmanuels Macrons Frakklandsforseta til Bandaríkjanna í dag til fundarhalda með Trump um málið og væntanlega för Keirs Starmers forsætisráðherra Bretlands á fimmtudag í sama tilgangi.

Kvað hann fulltrúa Þýskalands eiga að vera á leið vestur um haf einnig, Berlín væri eitt þriggja stórvelda Evrópu við hlið Bretlands og Frakklands. Algjört forgangsmál Þýskalands ætti að vera að trana sér fram á alþjóðavettvangi á nýjan leik. Landið væri stærsti stuðningsaðili Úkraínu á eftir Bandaríkjunum. Kvaðst Merz vilja halda þeim stuðningi áfram, en hann hefur þó verið þögull um skoðanir sínar á því að Þjóðverjar sendi hermenn til Úkraínu, nokkuð sem Bretar og Frakkar hafa lýst sig reiðubúna til.

BBC

The Guardian

Die Welt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert