„Við verðum að hraða afhendingu vopna og skotfæra,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í ávarpi sínu á leiðtogafundinum í Kænugarði í Úkraínu í morgun og hvatti þar með stjórnendur þeirra ríkja, sem styrkja her Úkraínu með slíkum varningi, til að herða sig.
Sagði forsetinn enn fremur að átökin í landinu væru „miðlægasta og afdrifaríkasta ógnin sem að framtíð Evrópu steðjar“ og þar væri álfan öll undir. Því næst tilkynnti forsetinn um þriggja og hálfs milljarðs evra aukaframlag Evrópusambandsins til Úkraínu, jafnvirði 510 milljarða íslenskra króna, sem kæmi sem viðbót við núverandi styrkjaáætlun sambandsins.
Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar lofaði áframhaldandi stuðningi síns heimalands við Úkraínu með vopnabúnaði og yrði þar enn aukið við fyrri framlög vígbúnaðar.
Kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau sagði stríð Rússa árás á „lífsstíl okkar, lýðræðið, lagabókstafinn, sjálfsákvörðunarréttinn og réttlætið“, Úkraína yrði að berjast áfram. Kanada legði fram tugi hernaðarökutækja til viðbótar, lendingarkerfi fyrir orrustuþotur og milljónir byssukúlna.
Þá tók japanski forsætisráðherrann Shigeru Ishiba til máls og kvað áreitni Rússa ólíðandi með öllu – hún vægi að hornsteinum alþjóðareglu.