„Það voru Rússar sem hófu þetta stríð,“ sagði Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands í ávarpi sínu á leiðtogafundi Evrópuríkja í Kænugarði í Úkraínu nú þegar þrjú ár eru liðin frá innrás Rússa í landið og upphafi stríðs sem enn stendur.
Hélt forseti máli sínu áfram og sagði það vel mega vera að Rússar hafi náð athygli Hvíta hússins í Washington, hins vegar hefðu þeir ekki nálgast neitt er kalla mætti lögmæti með aðgerðum sínum gegn ná“grannaríkinu.
„Heldur einhver í fullri einlægni að einhverjar samræður í hálfkæringi eða einhverjar stórkarlalegar yfirlýsingar geti gert vilja okkar að engu?“ spurði forsetinn og átti við vilja evrópskra leiðtoga til að koma að viðræðum um frið í Úkraínu.
„Nei, þvert á móti,“ svaraði Steinmeier svo eigin spurningu og sagði í framhaldinu að undanfarnar tvær vikur hefðu ekki gert annað en að styrkja Evrópubúa í einurð sinni um að standa upp fyrir sig sjálfa og fyrir Úkraínu.
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, undirstrikaði stuðning Tyrkja við Úkraínu og sagði Rússa og Úkraínumenn hvora tveggju skyldu vera við borðið þegar umræður um frið í Úkraínu hefjist.
„Leiðin í átt að réttlátum og varanlegum friði getur aðeins varðast af fyrirkomulagi sem gefur hinum stríðandi aðilum jafna og réttláta aðkomu að viðræðum,“ sagði forsetinn. Sagði hann Tyrki virða yfirráðasvæði, fullveldi og sjálfstæði hins stríðshrjáða ríkis.