Í dag eru þrjú ár liðin frá innrás Rússa í Úkraínu og í dag eru leiðtogar margra Evrópuríkja mættir til Kænugarðs, þar á meðal Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, til að vera viðstaddir minningarathöfn og í framhaldinu ræða málefni Úkraínu.
Bandaríkjamenn hafa gengið fram fyrir skjöldu við að koma á friði í Úkraínu, strokið Evrópuleiðtogum kirfilega andhæris og boðið afarkosti í formi samkomulags um auðlindir, sem Volodimír Selenskí forseti segir að sé nú til umræðu.
Ýmis teikn eru á lofti um að samið verði um vopnahlé á milli Úkraínumanna og Rússa á næstu mánuðum.
Miðað við þær yfirlýsingar sem komið hafa frá Hvíta húsinu undanfarna daga þykir víst að endanlegt vopnahlé muni að einhverju leyti fela í sér að Rússar haldi því landi sem þeir hafa hertekið í hinni ólöglegu innrás sinni.