Hamas-samtökin segja næstu skref í vopnahléi þeirra við Ísrael vera háð því að sex hundruð palestínskum föngum verði sleppt úr haldi Ísraela líkt og samið var um.
Ísraelar ákváðu í gær að fresta frelsun fanganna. Sökuðu þeir Hamas-samtökin um að hafa afhent ísraelska gísla með niðurlægjandi hætti.
Vopnahlé aðilanna byggir á því að Ísraelsk yfirvöld sleppi palestínskum föngum úr haldi þegar Hamas-samtökin afhenda ísraelska gísla.
Breska ríkisútvarpið greinir frá en þar segir m.a. að samtökin hafi, við eina afhendinguna, tekið upp myndskeið sem sýnir aðra ísraelska gísla, enn í haldi Hamas, fylgjast með afhendingu úr bifreið og biðla til Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, um að bjarga sér.
Einnig hefur vakið mikla athygli að samtökin hafi ekki afhent lík gíslsins Shiri Bibas á fimmtudagsmorgun heldur lík af palestínskri konu.
Fjölskylda Bibas staðfesti svo á laugardagsmorgun að hún hefði loks fengið lík dóttur sinnar afhent.
Sömuleiðis virðast Hamas og Ísrael ekki vera sammála um hver beri ábyrgð á dauða tveggja barnungra drengja Bibas.
Að sögn háttsetts fulltrúa Hamas setur ákvörðun Ísraela um að fresta frelsun fanganna vopnahléið í alvarlega hættu og er kallað eftir því að sáttasemjarar, þá sérstaklega frá Bandaríkjunum, þrýsti á Ísrael.
Greint hefur verið frá að Steve Witkoff, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, muni fara þangað til fundar í vikunni til þess að tryggja áframhaldandi vopnahlé á Gasa.
António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að forðast þyrfti þær aðstæður að átök yrðu tekin upp aftur á milli aðilanna. Þá kallaði hann einnig eftir að afhendingar þeirra gísla sem eru í haldi Hamas færu fram með virðulegum hætti.
Fyrsti áfangi vopnahlésins mun renna út næsta laugardag.