Kaffihúsakeðjan Starbucks hyggst leggja niður 1.100 störf en fyrirtækið er nú að endurskipuleggja sig og reyna að hækka sölutölur sínar.
Þetta upplýsti forstjóri keðjunnar, Brian Niccol, fyrr í dag.
Endurskipulagningin mun ekki ná til afgreiðslufólks sem vinnur við að þjónusta viðskiptavini. Um er að ræða skrifstofu- og stjórnunarstörf.
Niccol gekk til liðs við keðjuna í september 20204 eftir að sölutölur höfðu verið að valda vonbrigðum og störfuðu þá 361.000 manns fyrir fyrirtækið, þar af 16.000 í stjórnunarstörfum.
Að sögn Niccol er fyrirtækið nú að einfalda uppbyggingu sína og búa til smærri teymi. Er ætlunin m.a. að starfa á skilvirkari hátt.
Þá er kaffihúsakeðjan einnig að fjarlægja ýmsar vörur af matseðli sínum þ.m.t. drykki sem seljast illa.
Þess ber að geta að hlutabréf Starbucks hækkuðu um 1,6 prósent eftir tilkynninguna í dag.