Bandaríska fjármálaráðuneytið ver samningsumleitanir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta gagnvart Úkraínu og nýtingu auðlinda landsins með kjafti og klóm og rökstyður meðal annars með því að úkraínsk stjórnvöld geti reiknað með umtalsverðri efnahagslegri velsæld að stríðinu loknu gangi þau að tilboði Trumps.
Vilja Bandaríkjamenn, í skjóli samkomulagsins, fá aðgang að sjaldgæfum málmum og steinefnum í jörðu í Úkraínu, annaðhvort gegn fjárhagsaðstoð eða sem endurgreiðslu á þeirri fjárhagsaðstoð sem Bandaríkjamenn hafa þegar stutt Úkraínu með í innrásarstríðinu við Rússa sem í dag hefur staðið í þrjú ár.
Hefur Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hafnað samkomulaginu á þeirri forsendu að samþykki hans jafngilti því að selja Úkraínu, en í fyrsta uppkasti að samkomulaginu var kveðið á um að Bandaríkin fengju í sinn hlut helming alls ágóða sem af úkraínsku auðlindunum fengist – án þess þó að þurfa að láta nokkuð af hendi í staðinn.
Vísar bandaríski fjármálaráðherrann Scott Bessent rökstuðningi Úkraínuforseta á bug í grein sem hann ritar í bandaríska viðskiptadagblaðið Financial Times, en fyrir helgi gagnrýndi Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi Trumps viðbrögð Selenskís og lét þau orð falla að Bandaríkjaforseti væri „mjög svekktur“ yfir að starfsbróðir hans í Úkraínu hefði hafnað þessu „tækifæri sem við buðum“.
Þrátt fyrir þá neitun sem Bandaríkjamenn hafa nú fengið framan í sig rembast þeir sem rjúpan við staurinn og hefur Financial Times það eftir embættismönnum í Kænugarði, að digurbarkaleg ummæli Trumps fyrir helgi, á þá leið að Selenskí væri einræðisherra sem átt hefði upptökin að stríði landsins við Rússa, væri herkænskuleg flétta til þess að draga Úkraínumenn nauðuga að samningaborðinu í auðlindamálinu.
Bessent fjármálaráðherra er hraðkvæður að mæra tilboð Bandaríkjamanna í áðurnefndri grein í FT. Slær hann því þar fram að ágóðinn af málmunum fágætu og steinefnunum úr úkraínskum jarðvegi verði ávaxtaður í sjóði sem styðja muni við uppbyggingu Úkraínu og þróun að stríðslokum.
Bandaríkjamenn muni þó hafa töglin og hagldirnar í sjóðnum og stjórna fjárfestingastefnu hans. Tók ráðherra þó ekki fram sérstaklega hve hátt hlutfall auðlindaágóðans færi í sjóð þennan, né hve miklar greiðslur ganga skyldu úr sjóðnum í ríkissjóð Bandaríkjanna.
Sem fyrr segir hefur Trump þegar kynnt samkomulagið sem eins konar endurgreiðslu Úkraínumanna á því fé sem Bandaríkjamenn hafa látið af hendi rakna til þeirra þau þrjú ár sem liðin eru síðan Vladimír Pútín Rússlandsforseti gaf herjum sínum merki um að láta til skarar skríða.
Í samkomulagsuppkasti, sem dagsett er föstudegi næstliðnum, kemur sú útfærsla uppbyggingarsjóðsins fram sem gerir ráð fyrir að Bandaríkin hirði alla ávöxtun af sjóðsfé, en í sjóðinn legðu Úkraínumenn, sem fyrr segir, helming tekna sinna af auðlindunum þar til framlög þeirra nái 500 milljörðum dala, jafnvirði 69,6 billjóna íslenskra króna. Þá teljist stríðsskuldin við Bandaríkjamenn greidd.
Áfram heldur Bessent í rökstuðningi sínum og kveður samkomulagið uppfylla „ýtrustu staðla gagnsæis, áreiðanleika, stjórnunar og lögmætis svo stuðla megi að hámarksfjárfestingum einkageirans á eftirstríðsárum Úkraínu“ auk þess sem þáttur Bandaríkjanna í öllu saman „leyfi hvergi spillingu og innherjabrask“.
Slík er trú fjármálaráðherrans á samkomulaginu við Úkraínumenn, sem þó er hvergi nærri í hendi, að hann ferðaðist sjálfur til Kænugarðs fyrr í mánuðinum til þess að kynna fyrstu drög þess fyrir þarlendum embættismönnum. Var þar um fyrstu opinberu heimsókn ráðherrans nýskipaða að ræða.
Hafa úkraínsk stjórnvöld, eftir því sem hátt settir en ónefndir embættismenn úr röðum þeirra greina blaðamönnum FT frá, varið síðustu vikunni í að setja saman gagntilboð til Bandaríkjamanna sem þeir hafa þegar kynnt Keith Kellogg hershöfðingja, sérstökum erindreka Trumps í Úkraínumálum.
Selenskí forseti fer þess á leit við Bandaríkjamenn að þeir setji tryggingar inn í samningsákvæði sín áður en Úkraínumenn fallist á nokkuð. Inn á þetta kemur Bessent fjármálaráðherra einnig í títtnefndri grein sinni og ritar þar að ríki, sem ekki lögðu gjörva hönd á plóg við stuðning Úkraínu í stríðinu, muni ekki eiga þess nokkurn kost að hagnast á endurreisn hins stríðshrjáða lands eða njóta góðs af fjárfestingum í auðlindasjóðnum sem Bandaríkjamenn hafa lagt á ráðin um.
Bessent fjármálaráðherra teflir því fram í grein sinni að margt sé í tilboði Bandaríkjamanna sem Úkraínumenn hafi hreinlega misskilið. Varla þurfi að minna þá á að án stuðnings Bandaríkjamanna í stríðinu fram til þessa væri staða Úkraínu í besta falli hæpin.
Eins beri að hafa hugfast að Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hafi átt frumkvæði að því að bjóða Bandaríkjamönnum hlutdeild í auðlindum. Það hafi hann gert á fundi með Donald Trump í september.
Eftirstríðsárin gætu orðið besti kafli sögu landsins. Samkomulag gerði ekki annað en að tryggja það. Þá sé Úkraína stórskuldug. Lánardrottnar líti eðlilega með velþóknun til samkomulags á meðan eiginfjárstaðan sé sveiflukennd. Svo eitthvað sé nefnt.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er „ekki reiðubúinn“ til þess að undirrita samkomulagið um nýtingu auðlinda landsins, sem Bandaríkjastjórn hefur lagt fram, þrátt fyrir að bandarískir embættismenn hafi gefið til kynna á föstudag að Selenskí myndi undirrita það fljótlega.
Selenskí sagði þó á blaðamannafundi á sunnudag að stjórnvöld beggja ríkja væru nær því að ná samkomulagi. „Okkur miðar áfram,“ sagði forsetinn og bætti við að fulltrúar landanna hefðu ræðst við fyrr um daginn.
Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar í Úkraínu sagði að Úkraínumenn hefðu lagt fram ýmsar breytingar á fyrirhuguðum samningsdrögum til þess að gera það „uppbyggilegra“.
„Það eru engar skuldbindingar á hendur Bandaríkjunum í samkomulaginu varðandi tryggingar eða fjárfestingar, allt sem snýr að þeim er mjög óljóst og þeir vilja fá 500 milljarða bandaríkjadala frá okkur,“ sagði heimildarmaðurinn. „Hvers konar samvinna er það? Og hvers vegna þurfum við að gefa 500 milljarða, það er ekkert svar,“ bætti hann við.
Heimildarmaður CNN-fréttastofunnar í Úkraínu sagði um málið að Úkraínumönnum þætti tilboð Bandaríkjamanna sérkennilegt, þar sem verið væri að reyna að taka frá fórnarlambi innrásarinnar meiri fjárhæðir en það kostaði að tryggja varnir landsins.
Fréttastofa Reuters greindi frá því á laugardaginn og hafði eftir þremur heimildarmönnum að Bandaríkjastjórn hefði meðal annars hótað því að loka fyrir aðgang Úkraínumanna að Starlink-netkerfinu ef samkomulagið yrði ekki undirritað á næstu dögum.
Úkraínuher hefur nýtt Starlink-kerfið m.a. til þess að halda fjarskiptum hermanna sinna óhindrað áfram á vígvellinum, en það byggist á neti gervihnatta sem SpaceX-fyrirtækið hefur sent út í geim.
Grein þessi er hluti stærri umfjöllunar sem birtist í Morgunblaðinu í gær.