Reyndi að stela Graceland

Lisa Jeanine Findley hafði logið til um að einkabarn Elvis, …
Lisa Jeanine Findley hafði logið til um að einkabarn Elvis, Lisa Marie Presley, hefði veðsett heimilið fyrir láni sem henni hefði ekki tekist að greiða til baka fyrir andlátið. AFP/Mandel Ngan

Bandarísk kona játaði sig seka í dag um að hafa reynt að komast með ólöglegum hætti yfir Graceland, sögufrægt heimili Elvis Presley, og setja það á uppboð.

Lisa Jeanine Findley hafði logið til um að einkabarn Elvis, Lisa Marie Presley, hefði veðsett heimilið fyrir láni sem henni hefði ekki tekist að greiða til baka áður en hún lét lífið.

Samkvæmt dómsskjölum játaði Findley sig seka um póstsvik fyrir alríkisdómstól í Tennessee og fékk í staðinn vísað frá ákæru um persónuþjófnað.

Allt að 20 ára fangelsi

Nicole Argentieri, fyrrverandi yfirmaður sakamáladeildar dómsmálaráðuneytisins, sagði Findley hafa búið til fjölmörg fölsuð skjöl með fölsuðum undirskriftum til að gera lygina trúverðuga.

Findley hélt því fram að Lisa Marie Presley, sem lést í janúar 2023, hefði fengið 3,8 milljónir dollara að láni árið 2018 frá fyrirtækinu Naussany Investments, veðsett Graceland fyrir láninu og ekki tekist að greiða niður skuldina.

Áætlað hafði verið að ná fram sölu á Graceland í maí, en dómari í Tennessee kom í veg fyrir uppboð á eigninni í Memphis á síðustu stundu eftir að barnabarn Elvis, leikkonan Riley Keough, höfðaði máli þar sem sýnt var fram á að lánsskjölin væru fölsuð.

Findley á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi en mun líklega hljóta vægari dóm vegna samkomulags um málsmeðferð hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert