Bak við þungar gylltar dyr skrifstofu Volodimírs Selenskí í Kænugarði kristallaðist barátta forsetans við að halda í stuðning alþjóðasamfélagsins.
Á fundi með Scott Bessent, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta, blossaði upp spennan sem ríkir nú um framtíð þessa mikilvægasta hernaðarbandalags Úkraínu, að því er breska dagblaðið Financial Times greinir frá.
Gróf rödd grínistans fyrrverandi, sem þróast hefur í andspyrnuleiðtoga gegn innrásarstríði Rússlands Vladimírs Pútín, mun hafa ómað um alla sali er hann öskraði á bandaríska fjármálaráðherrann á fundi þeirra á dögunum.
Sá mun hafa krafist þess að Úkraína gæfi eftir helming af eignarrétti sínum á sjaldgæfum og mikilvægum steinefnum svo að Bandaríkin gætu endurheimt það fé sem varið hefur verið til að aðstoða landið.
500 milljarða bandaríkjadala nánar tiltekið, sem er tala sem Trump virðist hafa gripið úr lausu lofti.
„Hann var mjög reiður,“ hefur breska blaðið eftir manni sem varð vitni að svörum forsetans.
Háttsettir úkraínskir embættismenn tjá blaðinu einnig að Bessent hafi krafist þess að Selenskí skrifaði undir samninginn á staðnum.
Selenskí og Trump hafa lent í opinberu orðaskaki en Trump kallaði starfsbróður sinn frá Úkraínu einræðisherra og sakaði Úkraínumenn ranglega um að hafa hafið stríð við Rússland.
Segja margir orðræðu Trumps vera til þess fallna að beygja Úkraínu til samþykktar á jarðefnasamningnum.
Eins og greint var frá fyrr í kvöld hefur Volodimír Selenskí Úkraínuforseti nú fallist á umrætt samkomulag.
Trump hefur einnig fullyrt að Selenskí hafi tapað vinsældum í heimalandinu og nái nú aðeins 4% fylgi en í nýlegri könnun frá óháðri alþjóðlegri félagsvísindastofnun í Úkraínu (KIIS) mælist forsetinn enn með um 57% stuðning þjóðar sinnar.
Selenskí hefur svarað Trump með því að segja forsetann lifa og hrærast í rússneskri upplýsingaóreiðu.
Oleksandr Meresjkó, formaður utanríkismálanefndar úkraínska þingsins og flokksfélagi Selenskís, sagði við breska blaðið að það sem forseti hans ætti við væri að sumir í innsta hring Trumps gæfu honum slæmar upplýsingar sem stafi hugsanlega af rússneskum áróðri.
Ljóst er að eitt meginvandamál Úkraínu gagnvart Bandaríkjunum í dag er skortur á nánum og reglubundnum samskiptum við Trump og Hvíta húsið. Meresjkó sagði gjá í þeim samskiptum.
Andrí Jermak, starfsmannastjóri Úkraínuforseta, hefur jafnframt sagt það áskorun að mynda tengsl við nýju ríkisstjórnina vestra.
Oleksandr Prokúdín, yfirmaður svæðisstjórnar Úkraínuhers í Kherson-héraði, segir í samtali við Financial Times að hann sjái stefið í samskiptum ríkjanna í dag sem bergmál af því sem heyrðist á fyrstu dögum stríðsins.
Segir hann víðtæka innrás Pútíns hafa sameinað Úkraínu. Nú sé Trump með sinni orðræðu að safna fólki í kringum Selenskí og styrkja stuðninginn við hann.
„Hann er í raun að auka vinsældir Selenskís.“