Selenskí samþykkir samning Trumps

Selenskí vonast til þess að samningurinn ryðji veginn að langtíma …
Selenskí vonast til þess að samningurinn ryðji veginn að langtíma skuldbindingu Bandaríkjanna við varnarmál. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti hefur fallist á samkomulag um nýtingu auðlinda landsins sem hann vonast til að muni bæta samskiptin við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Þá vonast Selenskí einnig til að samningurinn ryðji veginn að langtíma skuldbindingu Bandaríkjanna við varnarmál.

Banda­ríkja­menn hafa sóst eftir aðgangi að sjald­gæf­um málm­um og steinefn­um í jörðu í Úkraínu, gegn fjár­hagsaðstoð eða sem end­ur­greiðslu á þeirri fjár­hagsaðstoð sem Banda­ríkja­menn hafa þegar stutt Úkraínu með í inn­rás­ar­stríðinu við Rússa sem hef­ur nú staðið yfir í þrjú ár.

Financial Times greindi frá.

BNA drógu til baka 500 milljarða dala kröfu

Embættismenn í Úkraínu segja stjórnvöld nú reiðubúin til að undirrita samninginn um sameiginlega þróun jarðefnaauðlinda sinna, þar á meðal olíu og gass, eftir að Bandaríkin drógu til baka kröfu um allt að 500 milljarði dala í hugsanlegar tekjur af nýtingu auðlindanna.

Þrátt fyrir skort á skýrri öryggisábyrgð, héldu embættismenn því fram að þeir hefðu samið um mun hagstæðari kjör og lýstu samningnum sem leið til að bæta sambandið við Bandaríkin til að styrkja horfur Úkraínu eftir þriggja ára stríð.

„Jarðefnasamningurinn er aðeins hluti af myndinni. Við höfum margoft heyrt frá bandarískum stjórnvöldum að þetta sé hluti af stærri mynd,“ sagði Olha Stefanishyna, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu og dómsmálaráðherra sem hefur leitt viðræðurnar, í samtali við Financial Times.

Mikilvægum spurningum enn ósvarað

Endanleg útgáfa samningsins felur í sér að stofnaður verði sjóður þar sem Úkraína leggur til 50 prósent af ágóða af framtíðartekjuöflun jarðefnaauðlinda í ríkiseigu, þar á meðal olíu og gasi. Sjóðurinn myndi þá fjárfesta í verkefnum í Úkraínu.

Umboð sjóðsins til að fjárfesta í Úkraínu er skilmálabreyting sem Úkraína hafði óskað eftir og kemur fram í skjalinu að Bandaríkin muni styðja efnahagsþróun Úkraínu til framtíðar.

Undanskildar frá sjóðnum eru þær jarðefnaauðlindir sem þegar leggja til úkraínska ríkiskassans, sem þýðir að það myndi ekki ná yfir núverandi starfsemi Naftogaz eða Ukrnafta, stærstu gas- og olíuframleiðenda Úkraínu.

Í samningnum er hins vegar ekki nefnd bandarísk öryggisábyrgð, sem krafist var upphaflega af stjórnvöldum í Kænugarði. Mikilvægum spurningum er einnig ósvarað, eins og hlut Bandaríkjanna í sjóðnum og skilgreiningu „sameiginlegs eignarhalds“ sem enn á eftir að útskýra.

Einungis „rammasamningur“

Embættismenn Úkraínu bættu við að samningurinn væri einungis „rammasamningur“, engar fjárhæðir myndu skipta um hendur fyrr en sjóðurinn yrði stofnaður og því nægur tími til að jafna út hugsanlegan ágreining.

Ríkisstjórn Selenskí mun einnig þurfa að leita samþykkis Úkraínuþings, þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa látið í ljós að þeir muni að minnsta kosti eiga í heitum umræðum áður en þeir staðfesta slíkan samning.

Karoline Leavitt, talsmaður Hvíta hússins, sagði það mikilvægt að þessi samningur yrði undirritaður, en gaf ekki upplýsingar um viðræðurnar.

Vildi ekki „selja“ Úkraínu

Upphafleg drög samningsins, sem Selenskí hafði hafnað, innihéldu íþyngjandi skilmála.

Trump hafði lagt þá fram sem leið fyrir Úkraínu að endurgreiða Bandaríkjunum fyrir hernaðar- og fjárhagsaðstoð frá innrás Rússa.

Vöktu skilmálarnir mikla reiði í Kænugarði og öðrum höfuðborgum Evrópu. 

Eftir að Selenskí hafnaði samningnum í síðustu viku sagði Trump Selenskí einræðisherra og sakaði hann um að hafa hafið stríðið í Úkraínu.

Undirritunarathöfn forsetana

Embættismenn Úkraínu sögðu samninginn hafa verið samþykktan af dóms-, efnahags- og utanríkisráðherrum og Selenskí kæmi til með að heimsækja Hvíta húsið á næstu vikum, hvar undirritunar athöfn færi fram með Trump. 

„Þetta verður tækifæri fyrir forsetann til að ræða hver heildarmyndin er. Og svo eftir það munum við geta hugsað um næstu skref,“ sagði einn embættismaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert